Sumarkveðja eftir Hannes Hafstein

Velkominn, andvari vordagsins bjarta,
von og gleði fagna þjer, hressandi blær.
Anda þú, lífþrunginn, eins á vort hjarta,
eins og hvert það blóm, sem nú vaknandi grær.
Vek hjá oss æskunnar andheita mál,
eins og þú vekur upp sofandi fræin.
Hreinsa þú alt eins vorn anda og sál,
eins og þú lofthreinsar bæinn.

Jörð, þú sem rís nú frá kulda og klaka,
kenn þú oss að grípa hvern frjóvgandi blæ,
kenn oss mót sjerhverjum sólgeisla’ að taka
svo vjer getum lífgað upp blómanna fræ.
Kenn þú oss snær, sem hið blíðheita bál
bræðir, svo verður þú streymandi alda,
þannig að láta úr sjálfra vor sál
sannleikann bræða hið kalda.

Kvikstreymu vötn, þið sem kastið nú böndum,
kennið oss að fylgjast í aflþjettum straum
jökum og kraphroða kasta oss af höndum,
kennið oss að magnast við byltingaflaum.
Kenn þú oss, kenn þú oss, fagnandi foss,
fall er ei hel, það er þrek, sem oss varðar.
Fallandi rænir þú regnbogans koss’,
rennur svo lengra, því harðar.

Velkomið, velkomið, sumarið sæla,
sumardagur fyrsti, þú hátíð vors lands!
Elskar þig barn hvert, sem mál vort kann mæla,
minningar og vonir þjer bindum í krans.
Vorsól, sem framleiðir vínberja glóð,
vorgjöfum þínum vjer að þjer nú snúum.
Glaðir vjer færum þjer gleðinnar óð,
gladdir af blikandi þrúgum.