Hvöt eftir Hannes Hafstein
Opnið sálar alla glugga
andans sólargeislum mót.
Burt með drauga, burt með skugga,
birtan hæfir frjálsri sjót.
Myrkrið fæðir uglur einar,
ekkert blóm í myrkri grær.
Sólin inn í æskuhreinar
árdagsrósir lífi hlær.
Þar sem sólin sjálfráð blikar,
svalur andað getur blær.
Þar sem aldrei andblær kvikar,
enginn geisli’ í myrkrið nær.
Breiðið arma báða móti
blænum, þótt hann við og við
fari í storm og byrstur brjóti
brúðu-rusl, er dýrkið þið.
Látið andans storm og strauma
streyma hýsum sálar í,
hreinsa og lífga loftið nauma,
leysa vanans ryk úr því.
Stökkvið upp úr fúnu fleti,
fyllið hjörtun nýjum móð.
Átumein er andans leti,
upp til starfs, er lyfti þjóð.