Foringinn eftir Þorvald Sæmundsson
ort um Hannes Hafstein
(birtist í Lesbók Morgunblaðsins 19. júní 2004)

Hann steig fram á sviðið með æskunnar óð,
og eldmóð og karlmennsku’ í barmi.
Og þjóðin varð hrifin og lærði hans ljóð,
sem lýst gátu fögnuði’ og harmi.

Og stórhuga var hann, um storminn hann kvað,
er stofnana feysknu nam brjóta.
Um úrhelli taumlaust og ískalt hann bað;
hins óhefta þráði’ hann að njóta.

Hann boðaði frelsi og framsækna tíð,
að fullveldis skammt væri’ að bíða,
þótt enn væri vorkalt og hafís og hríð,
það hret mundi brátt yfir líða.

Hann kenndi’, að þar dafnaði menningin mest,
er mörkin sitt fagurlim breiddi,
og víst efldist þróun á þjóðvori best,
að þekkingin brautina greiddi.

Hann forustu gegndi og farsæll æ var,
af flokkserjum stundum þó mæddur;
að dómgreind og framsýni flestum af bar
og fullhugans eldmóði gæddur.

Og foringinn hlaut bæði vegsemd og völd,
en valt reynist mörgum slíkt gengi.
Á tindinum hefðar er kyljan oft köld
og kempunum vært þar ei lengi.

Í höggi hann átti við öfundarmenn,
og oft voru rimmurnar snarpar.
Í minni er skerpa og orðsnilld hans enn,
þá óvægir sóttu að garpar.

Hann særðist á stundum, því hríðin var hörð
og hart oft í stjórnmálum barist.
Þótt kæmu í foringjans fylkingar skörð,
af fræknleik þó lengi var varist.

Í val loks hann hneig, en með skínandi skjöld,
því skuggum í þjóðlífi’ hann eyddi.
Hann boðaði nýja og bjartari öld
og brautina fólkinu greiddi.

Minning hans lifir, hans stórmerku störf
þau standa, þótt aldirnar renni,
sem varði um einstæðu afrekin þörf
og hið ódeiga hugsjónamenni.