Þorrablótsvísur eftir Hannes Hafstein
Til veiga, til veiga
vér vekjum sérhvern mann.
kominn er illviðrakóngurinn Þorri,
kaldur og fokreiður ættjörðu vorri.
Með blóti, með blóti
vér blíðka þurfum hann.
Hann gægist, hann gægist
með grettum Frónið á,
og sver það, að ef nú enginn blótar,
aðfarir hans skuli verða ljótar.
Til forna, til forna
hér fékk ‘ann blótin há.
Hann situr, hann situr
á svellilögðum stól.
Þegar ‘ann hnerrar, hretin dynja,
hósti ‘ann, fold og jöklar stynja.
Í kvefi, í kvefi
er karlinn mesta fól.
Vér þekkjum, vér þekkjum,
að það er óskaráð,
þegar er kvefið erjar á oss
ærlega kollu þá að fá oss.
Hann Þorri, hann Þorri
kann þetta upp á „láð“.
Því kollu, því kollu
að kalli réttum vér.
látum að vitum hans vindlana „dampa“,
vellheitu „toddýi“ þíðum hans kampa.
um skap hans, um skap hans
þá skoðum, hvernig fer.
Til friðar, til friðar
vér flytjum Þorra skál.
Blótum til árs og gæfta góðra,
svo gefi til lands og sjávar róðra!
Vér klingjum, vér klingjum
og kætum líf og sál.