Gömul saga og ný eftir Hannes Hafstein
Hún sat svo hljóð með höfuð beygt,
með hvítan vanga, dapra brá.
Á bréfi máttlaus höndin hélt,
það hrundu tárin niður á.
Það var það gamla. Gestur kom
að garð þar og beina hlaut.
Hann tryggðum hét og trúnað fékk,
en tældi snót og fór á braut.
Og það, sem henni’ í hjarta brann,
það hefur marga daga stytt:
„Hver sinnir nú um svívirt fljóð
og syndabarnið litla mitt?“