“Í faðmi fortíðar” heitir grein sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins þann 4. desember síðastliðinn, þegar 150 ár voru liðin frá fæðingu Hannesar Hafstein. Þar var gengið um Hannesarholt (Grundarstíg 10) í fylgd Ragnheiðar Jónsdóttur og sagt frá húsinu og framtíðardraumum því tengdu. Ragnheiður sagði meðal annars:
“Það skiptir máli að tengjast fortíðinni, þannig skiljum við betur að við erum heppnari en flestar þjóðir – í langflestu tilliti. Von okkar er sú að þetta hús komi til með að hýsa margvíslega starfsemi sem hjálpar okkur að tengja við stöðu okkar í tíma og rúmi. Við Íslendingar höfum farið heldur geyst inn í framtíðina og við þurfum tíma til að staldra við.“
Í greininni segir ennfremur:
Hannes Hafstein tók við ráðherraembætti 1904 og Ragnheiði og Arnóri þykir það góður tímapunktur við að miða. „Árið 1904 var Ísland að breytast úr sveitasamfélagi í borgarsamfélag, flestar stofnanir sem bera samfélagið uppi í dag urðu til um það leyti. Okkur langar að beina sjónum að þessum tíma, ekki embættistökunni sem slíkri heldur inntakinu. Hvernig var andinn í samfélaginu við upphaf tuttugustu aldarinnar?
Hlutverk okkar eigendanna er að skapa umgjörðina. Síðan taka aðrir við. Eigum við ekki að segja að við séum rekin áfram af nostalgíu eftir baðstofunni, þar sem fólk lifði og starfaði saman.“
Áhugasamir geta skoðað greinina hér: Í faðmi fortíðar (ath. hafa þarf aðgang að Greinasafni Morgunblaðsins).
Nokkrum dögum síðar þ. 12. desember skrifaði Guðmundur Andri Thorsson skemmtilega grein í Fréttablaðið sem tengdist afmæli Hannesar. Greinin nefndist “Andans eigin dóttir”.
Þyki okkur nóg um æsinginn og ófyrirleitnina og drullupolla-skvampið í þjóðfélagsumræðunni á okkar dögum þá er hún hátíð hjá því sem tíðkaðist á dögum Hannesar Hafstein þegar menn skirrðust ekki við að bera hver annan hinum verstu sökum á prenti, hnakkrifust, kölluðu hver annan sýfílissjúklinga, fyllibyttur, illmenni og það sem verst var: leirskáld. En þetta er samt svolítið slæmt ennþá og kvæðið „Strikum yfir stóru orðin” á enn erindi við okkur. Það má heita kredó Hannesar Hafstein og það ættu allir að lesa reglulega, ritstjórar, stjórnmálamenn, bloggarar, pistlaskúmar. 1. erindið er svona:
„Strikum yfir stóru orðin, / standa við þau minni reynum. / Skjöllum ekki skrílsins vammir,/ skiljum sjálfir hvað vér meinum.”
Og Guðmundur Andri heldur áfram:
Reynum að vanda okkur við það hvernig við tölum og skrifum. Hættum þessu gargi, þessu lýðskrumi, hættum að espa upp verstu kenndir fjöldans, leggjum af þessa ofsafengnu umræðu en reynum heldur að segja það sem við meinum og meina það sem við segjum. Skilja það sem við meinum. Við verðum að reyna að endurheimta orðin.
Greinin er aðgengileg á vefnum: Andans eigin dóttir.