Úr ljóðinu Aldamótin eftir Hannes Hafstein

Drottinn, sem veittir frægð og heill til forna,
farsæld og manndáð, vek oss endurborna!
Strjúk oss af augum nótt og harm þess horfna,
hniginnar aldar tárin láttu þorna.

Sú kemur tíð, er upp af alda hvarfi.
upp rís þú, Frón, og gengur frjálst að arfi.
Öflin þín huldu geysast sterk að starfi,
steinurðir skreytir aftur gróðrar farfi.

Sú kemur tíð, er sárin foldar gróa,
sveitirnar fyllast, akrar hylja móa,
brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa,
menningin vex í lundi nýrra skóga.

Sje jeg í anda knör og vagna knúða
krafti, sem vanst úr fossa þinna skrúða,
stritandi vjelar, starfsmenn glaða og prúða,
stjórnfrjálsa þjóð, með verslun eigin búða.