Vorið kom færandi hendi í Hannesarholt þetta árið, þó ekki með fuglasöng, heldur með gröfuskarki og athafnagný, því byggingarleyfi kom í hús um miðjan mars og var þegar hafist handa við að grafa og fleyga klöppina sem eftir er í garðinum.
Verkið er nú unnið frá Skálholtsstsígnum, enda hefur garðveggur verið fjarlægður tímabundið. Það gerir mögulegan aðgang stærri véla, sem veitir hagræði, þannig að jarðvinnuverktakar munu ljúka verkinu vel fyrir páska. Í framhaldi af því verður farið í að steypa kjallarann og undirstöður. Þegar grunnplatan er steypt og fyllt hefur verið að húsinu verða garðveggir steyptir aftur, húsið reist og gengið frá lóð.
Byggingarleyfið var ekki það eina sem varð til að létta lund Hannesarhyltinga í þessum ágæta marsmánuði, því að Húsafriðunarnefnd veitti 200 þúsund króna styrk vegna endurnýjunar glugga á Grundarstíg 10. Styrkur Húsafriðunarnefndar er fyrsti styrkur sem Hannesarholti hlotnast og er vel þegin viðurkenning á verkefninu.
Með bjartsýniskveðjum,
aðstandendur Hannesarholts