I.
Hjá þjóð vorri Þorlákur lifir,
dygðir bar hann,
drykksæll var hann.
Ef bruggið hann blessað fjekk yfir,
þá brást ekki’ í ölinu gerð.
Hann amaðist aldrei við kæti ;
staup út stakk hann,
stöðugt drakk hann
í hófi, og samt fjekk ‘ann sæti
með sælastri dýrlinga mergð.
Vort síðasta svall fyrir jól
er signað hans dýrlingastól.
Guð blessi Láka, hjálpi hann
að hressa líf og sál,
að skola upp vorn innra mann
og öll vor bæta mál.
Í sjerhvern þann, er sæmdum ann,
hann sendi andans bál!
Nú sálma ber að syngja,
glasaklukkum klingja.
Heilags Þorláks hringja skál.
Hann ann oss víst enn að fá dropa,
hann, sem áður,
hress og gáður,
æ þegar hann þurfti’ að fá sopa
drakk þrjá, eða fimm eða sjö.
Af guðhræðslu, segir nú sagan,
staupin tald’ ann,
tölu vald’ ann.
En hitt var af hugsun um magann,
að hann ei ljet duga sjer tvö.
Af dæmi hans dragi því menn,
að drekka’ ekki ‘ of lítið í senn.
Guð blessi Láka o.s. frv.
Af kveinstöfum sjúklinga saddur,
vill nú kæti,
ljóð og læti.
Um eilífð við eftirlaun gladdur
hann á sjer til gleðskapar föng.
Hann ann oss, að upp oss vjer dustum.
Kinkar kolli
kallinn holli,
og kitlar í hásælum hlustum,
ef heyrir ‘ann fjörugan söng.
Hver veit nema’ ‘ann beri’ af oss blak,
ef berst honum nú frá oss kvak.
Guð blessi Láka o. s. frv.
Svo gerum þá gaman hjer inni,
syngjum, hjölum
hátt í sölum.
Þá drukkið er dýrlings minni,
vjer drekkum í blóra við hann.
Hann fjelag vort biðjum að blessa,
auðga, bæta,
efla, kæta,
og stjórnina styðja og hressa
og styrkja hvern einstakan mann.
Vort síðasta svall fyrir jól
er signað hans dýrlingastól.
Guð blessi Láka, hjálpi hann,
að hressa líf og sá
og skola upp vorn innra mann
og öll vor bæta mál.
Í sjerhvern þann, er sæmdum ann,
hann sendi andans bál.
Nú sálma Bakki syngjum,
glasaklukkum klingjum.
Heilags Þorláks hringjum skál!
(Biskupasögur I. b., bls. 108 (Þorlákssaga):
„Svá var honum um drykk farit, at ekki mátti finna at á hann fengi, þótt hann hefði þess kyns drykk. En hann var svá drykksæll, at þat öl brást aldregi, er hann blessaði og signdi sinni hendi, þá er gerð skyldi koma. Hann var svá úvandlátur ok vinveittur at þeim veislum, er drykkur var, at hann samdi við alt þat, er eigi samdi illa. En þá er Þorlákur biskup drakk vatn eður óáfenginn drykk, þá fór hann svá stillilega með, ok svá mikilli bindandi, at hann saup á III sopa, eður V, eður VII, en nálega aldrei matmála milli ósjúkur, ef eigi voru almennings-drykkjur“.