Emil_i_Kattholti_Helga_E_Jonsdottir

Bókin um Emil í Kattholti kom út í íslenskri þýðingu Vilborgar Dagbjartsdóttur og Böðvars Guðmundssonar árið 1972 eða fyrir rúmum fjörutíu árum. Fyrri platan um Emil kom svo út í nóvember fimm árum síðar. Af þessu tilefni ætla aðstandendur plötunnar að efna til fjölskyldudagskrár í sal Hannesarholts laugardaginn 23. mars nk. kl. 15.00. Við sama tækifæri verða afhentar átta gullplötur. Dagskráin er haldin í samstarfi við Hannesarholt.

Ævintýraskáldið Astrid Lindgren, er einhver vinsælasti rithöfundur Norðurlanda. Bækur hennar hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál og gerðir hafa verið sjónvarpsþættir og kvikmyndir sem byggja á bókum hennar. Sögur Astridar eru Íslendingum að góðu kunnar, ekki síst sagan af óknyttadrengnum Emil í Kattholti. Árið 1972 þýddu Vilborg Dagbjartsdóttir (textann) og Böðvar Guðmundsson (söngtextana) bókina um Emil og árið 1977 kom hópur leikara og tónlistarmanna saman í Hljóðrita í Hafnarfirði og lék og söng um ævintýri þessa grallara inn á plötu. Árið 1978 var leikurinn endurtekinn þegar seinni platan um Emil kom út. Helgi Hjörvar, síðar alþingismaður, fór með hlutverk Emils á fyrri plötunni en Ólafur Kjartan Sigurðarson, síðar óperusöngvari, á þeirri seinni.

Þessar plötur slógu sannarlega í gegn. Þær hafa selst í mörg þúsund eintökum og eru því gullplötur. Það er full ástæða til að fagna og skemmta sér með því að rifja upp kynnin við Emil og Ídu systur hans, pabba Emils og mömmu, Alfreð vinnumann og Línu vinnukonu og síðast en ekki síst öll skammarstrikin hans Emils. Því er efnt til fjölskylduskemmtunar í Hannesarholti þar sem allir krakkar, pabbar og mömmur, afar og ömmur, frændur og frænkur á öllum aldri, eru hjartanlega velkomin.

Helga E. Jónsdóttir, sem leikstýrði báðum plötunum og fór með hlutverk sögumannsins, stjórnar dagskránni. Vilborg Dagbjartsdóttir, skáld og þýðandi bókarinnar, mun segja nokkur orð en auk hennar koma að þessari dagskrá Arnar Jónsson, Árni Tryggvason, Helgi Hjörvar, Margrét Örnólfsdóttir, Sigrún Hjálmtýsdóttir og Þóra Friðriksdóttir, sem öll léku og sungu á fyrstu plötunni. Þá taka Guðrún Alfreðsdóttir, sem var Lína, vinnukona, á seinni plötunni og Þórhallur Sigurðsson, sem leikstýrði Emil í Kattholti í Þjóðleikhúsinu, þátt í dagskránni. Halldór Arnarson, tónlistarmaður, sér um undirleik. Þess má geta að Helga er móðir Margrétar sem lék Ídu á báðum plötunum en önnur dóttir Helgu, Álfrún, fór síðar með hlutverk Ídu í leikritinu um Emil sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu árið 1992. Í dagskránni á laugardaginn munu tvö börn, Helga Finnborg Oddsdóttir og Hringur Oddsson, lesa og syngja hlutverk Emils og Ídu og Margrét Friðriksdóttir verður hífð upp í flaggstöngina, en þau eru öll barnabörn Helgu E. Jónsdóttur.

Sem fyrr segir hefst dagskráin kl. 15.00 í sal Hannesarholts (gengið inn frá Skálholtsstíg) og aðgangseyrir er kr. 2.000 fyrir fullorðna, ókeypis fyrir börn. Miðasala verður við innganginn, sætafjöldi er takmarkaður. Uppi á gamla þurrkloftinu í Hannesarholti verður leynigestur sem krakkarnir gætu haft gaman af að kynnast.