Ef einhver sveinn mjer segir:

„Jeg svanna leit svo fríðan,

að allar yfirstígur“,

þá óðar hrekk jeg saman.

Og ef hann síðan segir:

„Hún sýndist átján vetra,

var ljós og ljett á fæti“,

þá lemst um í mjer hjartað.

Og ef hann enn þá segir:

„Svo ástblítt hló hún til mín“,

þá kreppist á mjer knefinn

og kippast allir vöðvar.

En haldi hann svo áfram:

„Og hár í fljettum glóði“,

þá lyptir loksins bjargi,

sem lá á hjarta mínu.

Því meyjan mín hin bjarta

ei meiðir fegurð þannig,

að hár í fljettur fjötri.

Í frjálsum lokkum bylgjast

það gullið henni’ um herðar

og háls og rjóðar kinnar.