Mánudaginn 18. mars kl. 20.00 stendur menningarhúsið Hannesarholt fyrir málþingi sem opið er öllum áhugasömum. Þar verður fjallað um alþingiskosningarnar 1908 út frá bókunum Upp með fánann! eftir Gunnar Þór Bjarnason, Vonarstræti eftir Ármann Jakobsson og ritgerð Birgis Hermannssonar, Uppkastið. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur stjórnar umræðum.

Bókin Upp með fánann! eftir Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðing hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2012 í flokki fræðibóka. Viðfangsefni bókarinnar voru alþingiskosningarnar 1908 þar sem spurningin um sjálfstæði eða innlimun í Danmörku brunnu heitast á Íslendingum vegna sambandslagsfrumvarpsins sem nefnt hefur verið uppkastið. Höfuðskáld þjóðarinnar og Vestur-Íslendingar blönduðu sér í baráttuna en í aðalhlutverkum voru nokkrir af litríkustu stjórnmálamönnum fyrri ára: Hannes Hafstein, Skúli Thoroddsen, Björn Jónsson í Ísafold, Bjarni Jónsson frá Vogi og fleiri.

Gunnar Þór fór í gegnum mikið magn heimilda um efnið, landsmálablöð, tímarit, sendibréf og gögn í danska ríkisskjalasafninu sem ekki hafa áður verið nýtt af íslenskum sagnfræð­ingum, meðal annars dagbækur forsætisráðherra Danmerkur og óprent­aðar fundargerðir millilandanefndarinnar sem samdi uppkastið. Þessar heimildir bregða nýju og óvæntu ljósi á mikilvægan þátt í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Ritgerð Birgis Hermannssonar um sama málefni, „Uppkastið“ verður einnig rædd en hún fjallar ekki síst um breytingar á orðræðu í íslenskri pólitík sem varð um 1908 og kallast á við orðræðu nútímans.

Vonarstræti eftir Ármann Jakobsson (2008) er söguleg skáldsaga um miklar hugsjónir, mannlega veikleika og eina af fáum uppreisnum sem gerðar hafa verið á Íslandi. Þó að sagan gerist nákvæmlega öld áður en hún var rituð kallast hún á við samtímann þar sem hugtökin sjálfstæði og hugmyndafræði eru öllum að óvörum komin aftur á dagskrá í fyrsta sinn um langt skeið.

Snemma árs 1908 fóru Skúli og Theodóra Thoroddsen til Kaupmannahafnar til að taka þátt í samningum um framtíð Íslands í danska ríkinu. Um haustið fluttu þau frá Bessastöðum í Vonarstræti. En á þessum fáu mánuðum hafði allt breyst. Íslendingar höfðu gert hljóðláta uppreisn og stefndu nú að sjálfstæði. Skúli var orðinn þjóðhetja en skuggi veikinda og dauða vofði yfir fjölskyldunni í Vonarstræti 12. Húsið stendur enn þótt flutningur þess sé á dagskrá í náinni framtíð, og bókin er að hálfu skrifuð til að varpa ljósi á þá merkilegu sögu sem í húsinu býr og ber að varðveita.

Gunnar, Birgir og Ármann taka þátt í umræðum sem Guðjón Friðriksson sagnfræðingur mun, sem fyrr segir, stýra en gestir eru hvattir til að taka virkan þátt í þeim. Hægt er að skrá sig til þátttöku með því að senda tölvupóst á hannesarholt@hannesarholt.is eða með því að hringja í 5111904. Aðgangseyrir er kr. 1.000.