Sunnudaginn 28. apríl nk. kl. 14.00 leikur Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari á vígslutónleikum nýs flygils í tónleikasal Hannesarholts menningarhúss að Grundarstíg 10. Tónleikarnir verða endurteknir á sunnudaginn kl. 17.00 og þriðjudaginn 30. apríl kl. 20.00.

Flygillinn er af gerðinni Steinway and Sons og Víkingur Heiðar valdi hann í Þýskalandi nú á vordögum. Sem fyrr segir verða vígslutónleikar flygilsins á sunnudaginn kl. 14.00 og má segja að efnisskráin sé nokkurs konar óvissuferð. Víkingur Heiðar mun leika verk frá ólíkum tímabilum tónlistarsögunnar til að sýna eiginleika hljóðfærisins í sem litríkustu ljósi, spjalla um flygilinn og um tónlistina. Tónleikarnir taka um 50 mínútur í flutningi.

Við sama tækifæri verður greint frá nafni nýja salarins í Hannesarholti, sem er sérstaklega hannaður með tónlistarflutning í huga. Efnt var til nafnasamkeppni og bárust ríflega 100 tillögur. Höfundi vinningstillögunnar er boðið á tónleikana.

Víkingur Heiðar lauk námi til meistaragráðu frá Juilliard Listaháskólanum vorið 2008. Hann hefur komið fram á fjölda tónleika frá unglingsaldri, m.a. í Bandaríkjunum, Kína, Kanada, Lettlandi, Rúmeníu, Ítalíu, Belgíu, Spáni og Frakklandi auk þess að leika einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Juilliard Orchestra, New Juilliard Ensemble, Caput og Kammersveit Reykjavíkur svo fátt eitt sé nefnt. Víkingur hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir leik sinn. Hann hefur unnið Íslensku Tónlistarverðlaunin sem besti flytjandi og bjartasta vonin, sigrað í konsertkeppni Juilliard skólans og hlotið Menningarverðlaun Ameríska-Skandinavíska félagsins. Víkingur var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2009.

Miðaverð á tónleikana er kr. 3.900 og hægt er að panta miða með því að senda tölvupóst á hannesarholt@hannesarholt.is. Aðeins verður tekið við pöntunum í gegnum tölvupóst. Þegar er uppselt á fyrstu tónleikana, á sunnudag kl. 14.00.