Nú hef ég fundið það, er suðræn Saffó

söng um í fornöld, og svo margoft síðan

titraði’ og brann í muna og á munni

manna og svanna.

 

Nú hef ég fundið yndissára eldinn

æðarnar fylla, streyma gegnum brjóstið,

þrengjast sem eldregn út um kné og sköfnung,

afl fara’ úr kálfum.

 

Þornaði munnur, andköf brjóstið engdu,

er ég þig, Hrefna, leit í fyrsta skipti.

Fannst mér sem eldmynd innst úr sjálfs míns hjarta

út væri gengin.

 

Síðan ég friðlaus leita þín og þrái

þig. Ó, hve lengi skal ég funda bíða?

Hvar ert þú, dís, sem líkt og leiftur birtist?

Lát mig þig finna.