Ennþá blæs náfregnum inn yfir fjörð

frá orrustusvæðinu kalda,

og svalur fer yfir freðna jörð

og flytur ekkjunum boðin hörð.

En klökkur við klettarið alda

og kveðst ekki einsaman valda.

 

Er berjast skal óvægum andstæðing mót

og öllum synjað er friði,

þá dugar ei vaskleikinn hetjunum hót,

ef hjörinn deigan þarf rétta við fót,

og brynjan er brunnin af ryði,

er bezt þurfti’ að koma að liði.

 

Og hvorki fær vopn eða vaskleiki tjáð,

ef vígfimi kappana brestur,

og stýri ei vígfimi viturlegt ráð,

er vandséð þó, hver sigri fær náð.

Sá annmarkinn er ekki beztur,

ef æ þykist sérhver mestur.

 

Ég veit það, hrynjandi báran blá,

og þú, byrmilda loftgeimsins alda!

Á ykkur ei skuldinni skella má,

þótt skaðvænt oft reynist bátunum á,

og oft falli æskan valda

á orrustusvæðinu kalda.