Ég get ei að því gert, nei allt um allt:
ég undrast þetta viti firrta kapp,
ofstopann, þráann, snúðugt orð og snjallt,
er sneypir burtu sérhvert miðlungshapp
og brunar út í bláinn,
sem brigg á reginsjáinn.
Ég veit það: Nú er engin landnámsöld
og engri kúgun þarf að hörfa frá.
Ég veit, að flónsku fylgja syndagjöld,
og fáránlegt er margt vort busl og stjá. – –
En fleiru var þó fórnað,
er fyrst var hingað stjórnað.
Frá ætt og fortíð allri hurfu þeir,
sem ekki vildu þola Haralds stjórn.
Þeir yfirgáfu óðul, tóku geir
og ófrið með sér, þeirra tryllta fórn
til þráa og þvermóðs öfga
var: þeirra ættjörð göfga
Það er svo vitanlega vitlaust ráð
að vilja ekki heldur ,,semja“ ögn,
heldur en missa fé og feðraláð
og festa allt sitt traust við óviss mögn.
En samt: Ég ann þér andi,
sem enn ert til í landi.
Ég ann þér eins og barni’, er þjálfast þarf
og þreyta kapp, svo nota læri kraft.
Sú kemur tíð, þú skilur skyldustarf,
og skynjar það, að gjörvallt þarf sitt haft,
og nýtur frjómagns frelsis
í fjötrum mannvits helsis.