Ljóðahátíð á dönsku, ensku og íslensku
Fjórir rithöfundar koma í heimsókn frá Kaupmannahöfn til að taka þátt í ljóðahátíð dagana 24. – 26 september, þar sem þau lesa upp ásamt íslenskum rithöfundum. Miðvikudagskvöldið 25. september kl. 20:00 verður dagskráin flutt í Hannesarholti, aðgangseyrir er kr. 2500 (innifalið í miðaverði eru léttar veitingar í hléi). Þar munu lesa, auk erlendu skáldanna, þau Einar Már Guðmundsson, Jón Kalman Stefánsson, Anna S. Björnsdóttir og Þór Stefánsson. Miðapantanir eru hjá Önnu S. Björnsdóttur annasbj@internet.is og í s.8932663 Gengið er inn frá Skálholtsstíg.
Gestirnir frá Danmörku eru:
Niels Hav, sem hefur gefið út fjöldann af smásögum og ljóðabókum, sem hafa verið þýddar á mörg tungumál, nú síðast ,,De gifte Koner i Köbenhavn”. Hann ferðast mikið og hefur tekið þátt í upplestrum í Kína, Perú, Hollandi og Ítalíu.
Niels Hav er með þriggja ára ritlaun frá Rithöfundasjóði Danska ríkisins.
Cindy Lynn Brown, sem er ljóðskáld, kennir og heldur fyrirlestra um bókmenntir. Nýjasta bók hennar er ,,Rigtige börn vokser – ikke op i forbifarten”.
Karsten Bjarnholt, sem er formaður ljóðskálda í danska Rithöfundasambandinu. Hann hefur skrifað fjölda ljóðabóka, nú síðast ,,Dögnfluer på deltid”.
Lennox Raphael, sem er fæddur í Trinidad, en hefur verið búsettur í mörg ár í Kaupmannahöfn. Hann er ljóðskáld og dramatiker og hefur meðal annars skrifað ljóðabækurnar ,,Snow” og ,,Che”, sem fjallar um Che Guevara.
Upplestrarnir verða í Norræna félaginu við Óðinstorg, þann 24. september kl. 20 (enginn aðgangseyrir)
í Hannesarholti, þann 25. september kl. 20 aðgangseyrir kr. 2500
Sunnlenska bókakaffið, Selfossi þann 26. september kl. 16 (enginn aðgangseyrir) og
Gunnarshúsi að Dyngjuvegi 8, þann 26. september kl. 20 (enginn aðgangseyrir)
Allir eru hjartanlega velkomnir.