Desember er einstaklega skrautlegur og skemmtilegur mánuður hér í húsi og ástæða til að nefna það helsta sem er á dagskrá vikunnar. Í kvöld, mánudagskvöld verður Sigríður Þorgeirsdóttir, heimspekingur gestur í Hljóðbergi. Hún mun fjalla um nýútkomna bók sína Dagbók 2014. Í framsögu sinni veltir Sigríður upp þeirri spurningu hvort saga vestrænnar heimspeki sé á einhvern hátt öðruvísi þegar hún er sögð í ljósi kvennanna sem lagt hafa stund á heimspeki í gegnum tíðina. Hugsuðu þær á einhvern hátt öðruvísi? Annað kvöld verða glæsilegir jólatónleikar Elsu Waage og nemenda hennar, sem nefnast Rósirnar hennar Elsu. Dagskrá fimmtudagskvöldsins verður ekki amaleg því gestirnir eru fjölhæfir og flottir. Rithöfundarnir Andri Snær Magnason og Vigdís Grímsdóttir, tenórinn Gissur Páll Gissurarson og djasstríó Árna Heiðar Karlssonar. Laugardagurinn verður svo heldur fjörugur, þar sem við blásum til aðventuhátíðar sem við köllum Gefum og gleðjumst. Fjölmargir listamenn munu koma fram og gefa vinnu sína. Allur ágóði rennur til Fjölskyldumiðstöðvar Rauða Kross Reykjavíkur.