Krókusarnir eru farnir að gægjast upp úr moldinni í fallegu görðunum hér í kringum Hannnesarholt og fólk kemur æ léttklæddara til að gæða sér á krásunum hjá honum Sveini í Borðstofunni. Næstkomandi laugardag ætlar hópur fólks að kynna sér ævi og störf hinnar stórmerku báráttukonu, Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og fara í létta göngu um nágrenni Hannesarholts. Eins og margir vita voru þau Hannes Hafstein og Bríet miklir vinir og studdu hvort annað í hinum ýmsu þjóðrifamálum s.s baráttu íslenskra kvenna fyrir kosningarétti. Upplýsingar um þennan viðburð er að finna hér hægra megin á síðunni og hvetjum við áhugasama til að skrá sig hið fyrsta svo þeir komist með í þessa skemmtiferð. Aðgangseyrir er aðeins 1.500 kr. og innifalið er kaffi og kökubiti.
Gönguferðir af ýmsum toga njóta mikilla vinsælda og er skemmst að minnast frábærrar gönguferðar undir stjórn Guðjóns Friðrikssonar seinni part mars mánaðar. Þá fór fjöldi fólks í klukkustundar göngu um Þingholtin og horfðu svo á sutta heimildarmynd um Hannes Hafstein og uppvaxtarár borgarinnar. Þessi ferð var sú fyrsta af fjórum og mun sú næsta verða farin um Skólavörðustíg og Skólavörðuholt sunnudaginn 27. apríl. Við hvetjum fólk eindregið til að kaupa sér miða á www.midi.is til að tryggja að þeir komist með.