Það var mikill dýrðardagur í Hannesarholti laugardaginn 6.september, þegar listaverk Eggerts Péturssonar sem hann málaði undir áhrifum af Fjalldrapa Hannesar Hafstein var boðið velkomið í húsið. Eggert var svo hugfanginn af verkefninu að hann málaði annað, lítið verk, nokkurs konar fylgitungl fjalldrapans, og lét fylgja hinu stærra. Haustdagskrá Hannesarholts var kynnt við sama tilefni og voru Kristjana Stefánsdóttir og Víkingur Heiðar Ólafsson fulltrúar flytjenda í húsinu í vetur. Í lokin tók þingheimur undir í söng, til að minna á samsönginn sem Hannesarholt stendur fyrir mánaðarlega í vetur, næst sunnudaginn 14.september. Að lokinni dagskrá mátti heyra sæta hljóma úr strengjahljóðfærum ungra tónlistarmanna ofan af baðstofulofti. Falleg byrjun á góðu hausti í Hannesarholti.