Það er enginn skortur á viðburðum hér frekar en fyrri daginn og fjölbreytnin í fyrirrúmi. Á laugardaginn kl. 14:00 munu meðlimir Göngum saman fagna bleikum október með rífandi stemningu í Hannesarholti. Hin annálaða hlutavelta verður á sínum stað, bleik buff, bleik snyrtiveski, bleik gönguvesti, bleik gjafakort og fleira og fleira. Við hvetjum ykkur til að koma og gera góð kaup og styrkja um leið gott málefni. Hver einasta króna rennur til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini.
Á sunnudag er komið að síðustu gönguferð Guðjóns Friðrikssonar – að sinni. Guðjón mun ganga um hina sögufrægu götu, Bergstaðastræti og ekki þarf að efast um að menn fara margs vísari af hans fundi. Gangan tekur u.þ.b eina og hálfa klukkustund og svo er boðið upp á litla heimildarmynd um Hannes Hafstein og uppvaxtarár borgarinnar að göngu lokinni. Einnig má seðja sárasta hungrið og fá sér góðan kaffibolla eða heita súpu í notalegu veitingastofunum okkar. Hér má kaupa miða í gönguferðina. Það borgar sig að kaupa þá fyrirfram þar sem takmarkaður fjöldi kemst með í gönguna.
Klukkan fjögur á sunnudag hefjast aðrir tónleikar af sex í tónleikaröð sem Gerrit Schuil stendur fyrir í vetur og -nefnast Ljóðasöngur í Hannesarholti. Að þessu sinni mun Ágúst Ólafsson bariton syngja ljóð við tónlist eftir Johannes Brahms. Ágúst hefur þrisvar verið tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna og hlaut árið 2011 Íslensku tónlistarverðlaunin sem Flytjandi ársins ásamt Gerrit Schuil fyrir flutning sinn á ljóðaflokkum Schuberts á Listahátíð í Reykjavík 2010. Miða á tónleikana má kaupa hér.
Velkomin í Hanesarholti!