Sophie Kofoed-Hansen kom nýverið í hús og færði Hannesarholti ritgerð um upphafsár skógræktar á Íslandi, en Agner Kofoed-Hansen, afi hennar, gegndi stöðu fyrsta skógræktarstjórans, frá 1908-1935. Ritgerðina skrifaði Helgi Sigurðsson, og var hún partur af M.A.prófi hans við hugvísindasvið Háskóla Íslands 2009, vildu afkomendur Agners færa Hannesarholti eintak. Ritgerðin heitir “Sú kemur tíð, er sárin foldar gróa,” og vísar til ljóðlína í ljóðinu Aldamót eftir Hannes Hafstein, en hann var mikill baráttumaður fyrir skógrækt á Íslandi og mun hafa beitt sér fyrir því að Agner var fenginn til landsins til að sinna uppbyggingu skógræktar á Íslandi.