Sýningin á vatnslitamyndum Ólafar Svövu prýðir veggi veitingastofanna í Hannesarholti og mun hanga uppi fram í miðjan október. Sýningin hefur tekið smávægilegum breytingum, þar sem farfuglar hafa flogið af veggjunum og jafnvel til annarra landa. Nýjir koma í staðinn, þannig að enginn vandi er á höndum.

Ólöf er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún er útskrifaður leikskóla og listgreinakennari og hefur unnið við skapandi starf og þróunarverkefni í leikskólum síðastliðin þrjátíu ár.

Ólöf segir vatnsliti hafa heillað sig alla tíð, vegna þess hve óútreiknanlegir og gegnsæir þeir eru, útkoman komi oft á óvart, sé allt að því tilviljun háð. Lagt er upp með hugmynd, augnablikið er gripið og svo er haldið áfram. „Vatnslitirnir eru uppspretta fjölmargra möguleika hvað varðar litanotkun, hugmyndir og áferð, sköpunarferlið er tilraunakennt, eins konar óvissuferð.“

Ólöf hefur tekið þátt í fjölmörgum námskeiðum í myndlist í gegnum tíðina, meðal annars í Myndlistarskóla Kópavogs hjá Derek Mundell, Guðrúnu Sigurðardóttir og Ingibergi Magnússyni, einnig vatnslitanámskeiðum hjá Bridget Woods og Rúnu Gísladóttur.