Sýningin GENGIÐ UM stendur nú yfir á baðstofuloftinu.

Sindri Leifsson (f.1988) og Matthías Már Einarsson (f.1995) hafa báðir verið að vinna verk í tré og sameina þeir nú krafta sína í sýningunni GENGIÐ UM.

Ólíkar nálganir þeirra að efniviðnum gefa af sér hluti sem fela í sér keimlika virkni og fagurfræði og sýndir eru í sameiginlegri innsetningu. Með hörpuleik Erlu Bjarkar Sigmundsdóttir (f.1973) tengjast verkin enn frekar saman en um leið nýtir hún verkin sem efnivið í nýtt sjálfstætt verk sem er vídeó af henni að leika á hörpu.

Efniviðurinn er fundið timbur sem kemur héðan og þaðan úr nærumhverfi listamannanna. Meðal annars uppvaxtarheimili Sindra og úr dönskum skógi við hlið heimilis Matthíasar. Harpan sem Erla leikur á er Sólheimaharpa úr mahóní við, smíðuð á Íslandi.

Erla Björk, sem er jafnframt listamaður List án landamæra í ár, spilar á hörpuna fyrir gesti í opnuninni. Upptaka af tónlist hennar og sýningunni í heild er aðgengileg fyrir gesti á loftinu og einnig á 1.hæð í tölvu og á netinu, fyrir þá sem ekki komast stigana.

Sýningin er á lofti Hannesarholts.