Georg Douglas hefur getið sér gott orð fyrir litrík málverk sín, sem hann tók til við að mála af fullum krafti eftir að hann fór á eftirlaun frá kennslustörfum í MH, þar sem hann var við kennslu í jarðvísindum í 36 ár. Georg er fæddur á Írlandi 1945 en varð Íslenskur ríkisborgari 1975. Hann tók doktorspróf í jarðvísindum 1973 og það er skemmtilegt að sjá hversu mikil áhrif fræði hans og störf hafa á tjáningna í  málverkum hans. Hér er hans eigin lýsing á sýningunni:

„Litur blómanna er oft skær og áberandi en ekki er síður eftirtektarvert heildarumhverfi eða heimur blómanna. Undirgróðurinn hefur oft sterk áhrif á það hvernig við upplifum blómin. Þetta gildir sérstakleg um íslensk villiblóm sem gægjast oft í gegnum þykka og forvitnilega flækju af mosa, fléttum og grösum.

Heimur blómanna verður enn merkilegri og furðulegri þegar við skoðum hann í meiri nærmynd með hjálp smásjártækni og sameindalíkana af prótínum og vefjum. Þá opnast nýjar og stærri víddir sem eru ekki síður fallegar en blómkrónur. Málverk mín sameina alla þessa þætti og í þeim er hlutföllum víxlað eða breytt til þess að mynda abstrakt heild, þar sem blómin sjálf eru stundum áberandi en stundum fá þau rétt að kíkja í gegnum flækjuna af þáttunum sem þau eru gerð úr eða vaxa í.“

Sýningin opnar kl.16 fimmtudaginn 1.mars og stendur í fjórar vikur.