Vorið boðar yl og bjartar sumarnætur þar sem hringrás náttúrunnar í jurta- og dýraríkinu vaknar af löngum vetrardvala.

Með hlýnun jarðar hafa ýmsar framandi fuglategundir fært sig norður á bóginn og flækst hingað heim landsmönnum til yndisauka.

Flækingar eru af mörgum stærðum og gerðum svo sem bjarthegri og hnúðsvanur sem báðir teljast vera sjaldséðir flækingsfuglar. Jafnvel sést æ oftar hér á landi til hins agnar smáa glóbrystings vegna hlýnandi loftslags.

Bjarthegrinn er tignarlegur og formfagur fugl sem eftirsóknarvert er að skoða og festa á striga þá sjaldan til hans sést.

Athyglisvert er að hnúðsvanurinn hefur ekki einungis borist hingað sem sjaldgæfur flækingur því á tuttugu ára skeiði (1958 – 1977) var Reykjavíkurtjörn heimkynni lítils hóps hnúðsvana sem var vinabæjargjöf frá Hamborg til Reykjavíkur. Svanirnir voru mikil borgar- og Tjarnarprýði á sinni tíð meðan þeirra naut.

Einn áreiðanlegasti fastagestur fjölmargra farfugla hér á landi er krían sem treysta má að nemi land hérlendis nánast á sama degi ár hvert. Í bernskuminni var það 14. maí sem krían víðförla snerti Tjarnarbakkann með viðeigandi ærslagangi, hávaða og fjöri.

Megin viðfangsefni sýningarinnar eru portret af flækingsfuglum, einkum bjarthegrum og hnúðsvönum, en fleiri eftirlætisfuglar svo sem kríur og hrafnar fá að fylgja með.

Svo koma börn eitthvað við sögu.

Sýningunni lýkur 28.júní.