Fjölbreytt tónlistardagskrá í Hannesarholti á menningarnótt fyrir alla, án endurgjalds. Veitingahúsið opið allan daginn, fullt af girnilegum mat og bakkelsi.

Alls konar tónlist verður í hávegum höfð í Hannesarholti á menningarnótt, tónleikar, fjöldasöngur og endar í salsadansi fram á kvöld. Allir velkomnir.

Dagskrá:

12:00: Söngelska tvíeykið Svavar Knútur og Kristjana Stefánsdóttir spila á raddbönd, gítar og hláturtaugar gesta eins og þeim einum er lagið.

13:00: SYNGJUM SAMAN – er hálfsmánaðarlegur viðburður í Hannesarholti sem hlúir að lifandi sönghefð Íslendinga. Að þessu sinni stjórnar Harpa Þorvaldsdóttir samsöngnum.

14:00: NO TIME FOR SLEEP: Frumflutningur á strengjakvintett eftir Daníel Sigurðsson.

15:00: Söngelsku feðginin frá Eyrarbakka; Valgeir Guðjónsson og Vigdís Vala flytja saman þekkt lög og minna þekkt úr tón- og textasmiðjum sínum.

16:00: MÚLTÍKÚLTÍKÓRINN er fjölþjóðlegur sönghópur kvenna, frá öllum heimshornum. Kórnum stjórnar Margrét Pálsdóttir. Hljóðfæraleikarar eru Ársæll Másson (gítar), Ari Agnarsson (harmónikka) og Rafael Cao Romero (slagverk).

18:00: Ari Árelíus, Reykvískur tónlistarmaður spilar lög ásamt hljómsveit af nýútgefinni plötu sinni Emperor Nothing fyrir gesti.

:::HLÉ:::

21:00 Mambolitos kvartettinn, einnig þekktur sem Mambólingarnir, leikur bæði standarda úr salsaheimum ásamt frumsömdu efni. Í Hannesarholti mun hópurinn leika undir dansi fyrir dansþyrsta Menningarnæturgesti og verður eintóm gleði við völd.