Fortíðin getur kennt okkur svo margt og það eru fáir núlifandi einstaklingar sem hafa haft meiri áhrif á nútíð okkar og framtíð en afmælisbarn dagsins, Vigdís Finnbogadóttir, sem fagnar 91 árs afmæli í dag, 15.apríl. Það er einboðið að leggja við hlustir þegar slíkir einstaklingar eru tilbúnir til að segja frá lífi sínu og hugðarefnum. Í dag afmælisdaginn verður forsýndur í Hannesarholti viðtalsþáttur við Vigdísi, sem Viðar Víkingsson kvikmyndagerðarmaður tók upp 2012 fyrir Hannesarholt og er fyrsti þáttur af fjórum. Í þessum þætti eru viðmælendur Marinella Arnórsdóttir og Halla Oddný Magnúsdóttir, en í hinum sem á eftir koma eru viðmælendur Haukur Ingvarsson, Katrín Jakobsdóttir og Sjón. Ríkissjónvarpið mun taka þessa þætti til sýninga fjögur sunnudagskvöld frá 30.maí næstkomandi.