Málverkasýning Ingibjargar Dalberg, VIÐ VÖTNIN, stendur yfir í Hannesarholti frá 2.-20.september. Viðfangsefni sýningarinnar er að mestu tengt vötnum hér á landi, sjó, stöðuvötnum, tjörnum eða ám og lækjum. Vatnið sem undirstaða alls lífs hér á jörð. Lómur syndir með unga á kyrrlátu vatninu og jaðrakan veður í ró sinni og buslar. Smágerð maríuerla speglar sig í polli á meðan kríurnar leika sér og daðra hátt yfir Tjörninni. Bjarthegri, eftirlætis flækingsfuglinn er sem fyrr á ferð við vötnin. Annar á heimleið til Hegraness með viðkomu í vörmum læk, á meðan hinn sér sjálfan sig á spegilsléttu heiðarvatni einhvers staðar upp til heiða. Gróður jarðar er einnig ríkjandi á sýningunni, einkum sá sem vex villtur við vötnin. Þrjú óhlutbundin málverk eru á sýningunni sem rugla vel upp í ,,rýminu”. Öll málverkin eru unnin með olíu á striga utan myndin af Heklu og þau óhlutbundnu sem gerð eru með akríllitum á striga.

Myndlistarnám hefur Inga sótt í Englandi 1989 National Diploma Found. Higher Ed. Art and Design. London, og 1988 Hull College of Further Ed. A Level Art. England. Síðar sumarönn í Frakklandi 1993 École des BeauxArts –París auk fjölmargra námskeiða á Íslandi t.d. við Myndlistaskólann í Reykjavík, Myndlistarskóla Kópavogs og Listabraut FB. Annað myndlistartengt nám er BA próf í sagnfræði og listasögu frá Háskóla Íslands 2010 og var viðfangsefni lokaritgerðar hennar ,,Brot úr sögu smámynda á Íslandi. Upphaf og endalok 1770-1840” tengt órannsökuðum anga í sögu myndlistar hér á landi.

Með hléum hefur Inga starfað við listmálun og vinnur hún ýmist við stór óhlutbundin verk til jafns við fígúratívar myndir. Einkum eru það andlitsmyndir/portret með áherslu á raunsæi sem hafa verið megin viðfangsefni undnfarin ár. Sýningin er aðgengileg á opnunartímum Hannesarholts frá 11:30-16:00 alla daga nema sunnudaga og mánudaga og stendur til 20.september. Allar myndirnar á sýningunni eru til sölu. Ingibjörg verður með leiðsögn um sýninguna kl.11.30 þriðjudaginn 5.september.