Harpa Þorvaldsdóttir stýrði Syngjum saman í Hannesarholti laugardaginn 28.október kl.14. Harpa er gestum Hannesarholts að góðu kunn, enda hefur hún margoft stýrt söngstund í Hannesarholti. Harpa er stofnfélagi í hljómsveitinni Brek, tónlistarkona og lagahöfundur, og hefur stýrt söngmennt í Laugarnesskóla og með eldri borgurum í bænum árum saman.

Syngjum saman í Hannesarholti veturinn 2023-2024 er tileinkað Marinellu Ragnheiði Haraldsdóttur, sem var fædd 1933 og hefði því orðið níræð 14.september 2023. Hannesarholt er til vegna hennar og hún mætti á alla Syngjum saman viðburði með mér þar til heimsfaraldurinn truflaði taktinn. Um leið og við minnumst hennar og heiðrum, viljum við taka hana okkur til fyrirmyndar. Söngurinn fylgdi henni ævina út, þar til hún lést 11.júlí síðastliðinn. Frítt er inná Syngjum saman í minningu hennar í vetur, textar á tjaldi og allir geta sungið með. Allar kynslóðir velkomnar.