Fréttabréf í október 2023

Októberkveðja úr Hannesarholti á fallegum haustdegi. Haustdagskrá er komin á fullt og framundan eru fjölbreyttir og áhugaverðir viðburðir auk þess sem veitingastaðurinn er í fullum gangi og hádegisverður í boði alla daga sem opið er. Einnig er vert að minna á aðalfund Hollvina Hannesarholts, sem verður haldinn miðvikudaginn 18.október kl.16. Það má eiginlega segja að október sé barmafullur af menningu í Hannesarholti.

TÓNLEIKAR – Einar Bjartur Egilsson heldur útgáfutónleika föstudaginn 6.október kl.20. ásamt Chrissie Telmu Guðmundsdóttur fiðluleikara og Hrafnhildi Mörtu Guðmundsdóttur sellóleikara, þar sem hann kynnir lög af plötu sinni Kyrrð. Breiðskífan kom út í fyrra og þetta eru síðbúnir útgáfutónleikar. Einnig verða leikin eldri verk Einars af plötunni Heimkoma. Miðasala á tix.is

KVÖLDSTUND – Kvöldstund með Roberto Luigi Pagini og Kristborgu Bóel Steinþórsdóttur fimmtudaginn 12.október kl.20. Roberto hefur búið á Íslandi í tíu ár, sem hann kallar Tíu ár í Paradís. Ítalía er upprunaland hans en hann kaus að læra miðaldafræði á Íslandi. Þau Kristborg spjalla um fjölbreytt áhugamál Robertos og hann leikur fyrir gesti á lútu, sem hann telur íslendinga búna að gleyma. Miðasala á tix.is

TÓNLEIKAR – Sara Su Jones og Tatyana Stepanova bjóða til dúótónleika föstudaginn 13.október kl.19.30 í tilefni af sýningu Hans Jóhannssonar á afrakstri fjögurra áratuga fiðlusmíði. Einstök tóngæði fiðlunnar sem hann smíðaði fyrir Sara Su 2017 munu njóta sín vel í Hljóðbergi, sem eins og við vitum er rómað fyrir góðan hljómburð og nándina sem skapast milli flytjenda og áhorfenda. Tónleikarnir hefjast á stuttu spjalli fiðlusmiðsins um fiðluna sem hann smíðaði fyrir Sara Su. Enginn aðgangseyrir er á tónleikana en mikilvægt er að skrá sig og taka frá sæti á tix.is. Sara Su og Tatyana hafa starfað saman síðastliðin fimmtán ár og leikið víðs vegar um Bandaríkin. Sara Su kemur frá Bandaríkjunum, en Tatyana er af Úkrainskum uppruna. Efnisskrá þeirra telur gjarnan lítt þekkt, en einstök verk. Skráning á tix.is

SYNGJUM SAMAN – Pálmar Ólason og Magnea Tómasdóttir stýra Syngjum saman laugardaginn 14.október kl.14. Magnea hefur sungið með Pálmari alla sína ævi, enda er hún bróðurdóttir Pálmars, og fjölskyldan mjög söngvinn. Gestir Hannesarholts muna eflaust Pálmar á píanóinu í veitingastofunum, þegar boðið var uppá kvöldverð með lifandi tónlist fyrir nokkrum árum. Hann fagnar 85 ára afmæli í dag og sendum við Hannesarhyltingar honum hjartans kveðjur.

OPNUN MÁLVERKASÝNINGAR – Margrét E.Laxness opnar málverkasýningu sína Himininn yfir jöklinum laugardaginn 14.október kl.14. Þar sýnir hún ný málverk unnin í akríl á striga, þar sem birtist landslag, órætt en samt kunnuglegt, andrúmsloft, hugarástand, eins konar náttúruljóð sem þenur mörk hins raunsæja og þekkta. Sýningin er sölusýning og stendur til 1.nóvember.

KVÖLDSTUND – Kvöldstund með mæðgunum Jasminu Vajzovic og Özru Crnac fimmtudaginn 19.október kl.20. Reynslubanki þeirra er ólíkur okkar flestra, en hann innifelur reynslu af lífi í stríðsátökum, á flótta, sem innflytjandi og sem annarar kynslóðar innflytjandi, barn foreldra sem flúðu stríð. Þær deila með gestum sögu sinni og innsýn og lýsa því hverju það hefur breytt að eignast Ísland að heimalandi. Miðasala á tix.is

TÓNLEIKAR – Alessandra Toni píanóleikari frá Ítalíu heldur tónleika föstudaginn 20.október kl.20 ásamt Kiann, ítalsk-persneskum píanóleikara. Þetta er í fyrsta sinn sem þau leika saman á Íslandi, en tónleikana nefna þau The Piano Alchemy. Bæði eru þau tónskáld auk þess að vera píanóleikarar og einbeita sér að því að endurskapa og sameina tónlistartegundir. Nýklassík er orð sem kemur gjarnan upp í tengslum við tónlist þeirra. Alessandra gaf nýlega út sína fyrstu plötu, sem Kiann framleiddi, en Kiann er vel þekktur í heimalandi sínu og hefur haldið tónleika í tónleikahöllum víðs fjarri Íslandi. Miðasala á tix.is

TÓNLEIKAR – Alexandra Chernishova heldur tónleika ásamt Kjartani Valdimarssyni fimmtudaginn 26.október kl.20 til að fagna því að í október eru tuttugu ár síðan hún fylgdi hjarta sínu og elti ástina til Íslands. Á þessum árum hefur hún haldið yfir tvö hundruð tónleika á Íslandi, sett upp tíu óperur, samið fjórar óperur, tvær sinfóníur, gefið út geisladiska, stofnað óperufélög, stýrt kórum og tónlistarhátíðum. Á efnisskránni verður úrval klassískra sönglaga úr 20 ára söngævintýri Alexöndru og hún vill þakka fyrir sig. Miðasala á tix.is

TÓNLEIKAR – Silkikettirnir halda tónleika í Hannesarholti föstudaginn 27.október kl.20.30 til að fagna útkomu 6 laga EP plötu Smurðar fórnir. Hljómsveitina skipa Bergþóra Einarsdóttir og Guðrún Hulda Pálsdóttir og á hljómsveitin rætur aftur til ársins 2014. Lag þeirra Andans dóttir við ljóð Hannesar Hafstein Strikum yfir stóru orðin hlaut sérstök innanhússverðlaun í Lagakeppni Hannesarholts og stöðvar 2 haustið 2020 og var hluti verðlaunanna að halda tónleika. Við fögnum því að fyrstu útgáfutónleikar sveitarinnar séu einmitt haldnir í Hannesarholti. Með þeim á tónleikunum verða Daníel Auðunsson, Karl Pestka og Sólrún Mjöll Kjartansdóttir. Miðasala á tix.is

Harpa Þorvaldsdóttir stýrir Syngjum saman laugardaginn 28.október kl.14, en gestir Hannesarholts muna Hörpu vel eftir að hún hélt utanum Syngjum saman í Hannesarholti árum saman. Auk þess að vera tónmenntakennari og tónskáld er Harpa ein af stofnfélögum hljómsveitarinnar Brek, sem hefur sprungið út á síðustu árum. Frítt er inn á Syngjum saman í vetur, til minningar um og til heiðurs Marinellu Ragnheiði Haraldsdóttur 1933-2023, sem má kalla guðmóður Hannesarholts.

Með hollvinakveðju fyrir hönd heimilisfólksins í Hannesarholti,

Ragnheiður Jónsdótti