Tourlou á Íslandi – Live music without borders
29/06/2018 @ 20:00 - 21:30
Í fyrsta sinn á Íslandi – Tourlou býður tónleikagestum í ferðalag til landa á borð við Búlgaríu, Króatíu, Armeníu, Grikkland, Ítalíu og Spán. Tríóið flytur þjóðlagatónlist í eigin útsetningum og á efnisskránni kennir ýmissa grasa, allt frá melankólískum ballöðum til líflegrar danstónlistar. Eins og efnisskráin koma tónlistarmennirnir úr ólíkum áttum, frá Íslandi, Spáni og Hollandi.
Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá stofnun Tourlou hafa þremenningarnir farið í tónleikaferðalag um Spán og Japan, gefið út sinn fyrsta geisladisk og komið fram á hinum ýmsu tónleikum og tónlistarhátíðum í Hollandi og Belgíu.
Tónleikar Tourlou í Hannesarholti eru hluti af verkefninu “Live Music Beyond Borders”. Verkefnið gengur út á að bjóða upp á ókeypis tónleika fyrir fólk sem af einhverjum ástæðum hefur annars ekki tök á að sækja tónleika – hvort sem er af fjárhagslegum, heilsufarslegum eða öðrum ástæðum. Á tónleikaferðalagi sínu um Ísland mun Tourlou meðal annars koma fram í Vin – athvarfi fyrir geðfatlaða og á dvalarheimilinu í Stykkishólmi. Allur ágóði af tónleikunum í Hannesarholti rennur í verkefnið. Hægt er að lesa meira um “Live Music Beyond Borders” og hlusta á tónlist Tourlou á www.tourloumusic.com.
Tríóið skipa:
Anna Vala Ólafsdóttir, selló og söngur
David Alameda Márquez, fiðla, víóla d’amore, mandólín og söngur
Mayumi Malotaux, fiðla, mandólín og söngur