Hleð Viðburðir

Marta Margrét Rúnarsdóttir, opnar ljósmyndasýningu sína, “Fólk eins og við”, í veitingasölum Hannesarholts laugardaginn 18.mars kl.14.

Um er að ræða fyrstu einkasýningu Mörtu Margrétar hér á landi. Marta sem hefur starfað sem lögfræðingur á Íslandi og í Belgíu um árabil, hefur á síðustu árum tekið þátt í alþjóðlegum listasýningum á Norðurlöndunum og á meginlandi Evrópu og hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir ljósmyndir sínar, m.a. frá Prix de la Photographie í París. Næst á dagskrá er þátttaka í samsýningu ljósmyndara “Frame within frames” í Minneapolis í Bandaríkjunum í mars og samsýning ljósmyndara og rithöfunda í MIMO, Museum of the Moving Image í Leiria í Portugal frá apríl 2023. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu hennar www.morebym.com

Engan óraði fyrir fram fyrir þeim breytingum sem urðu á lífi fólks í Evrópu á meðan heimsfaraldri stóð. Um árabil hvarf margt sem áður var talið sjálfsagt og venjulegt. Ósýnilegir veggir hömluðu ferðalögum og samskiptum manna í milli. Götur urðu tómar, andlit hurfu og raddir hljóðnuðu. Tengsl fólks breyttust. Tíminn varð afstæður. Kyrrðin að óþægilegri ókyrrð. Þögnin varð hávær. Hjá mörgum leitaði hugurinn inn á við; upp hófst endurmat á þeim gildum sem við lifum eftir og þeim þáttum sem skipta okkur raunverulegu máli sem einstaklingar og sem hluti af þjóðfélagi.

En það þarf ekki heimsfaraldur til. Þjóðfélagsbreytingar nútímans og aðstæður í lífi hvers og eins geta vakið upp sömu tilfinningar og sömu áleitnu spurningar. Að lifa, þroskast og eldast felur í sér ýmis umskipti og áskoranir; upplifun fólks á umhverfi sínu og tengsl við annað fólk breytist með tímanum. Þjóðfélagið hefur breyst ört og mun breytast enn meira til framtíðar vegna nýrrar tækni. Skjáir koma oft á tíðum í stað beins augnatillits og sýndarheimar í stað raunheima.

Á ljósmyndasýningunni er að finna svipmyndir frá götum Evrópu á meðan á heimsfaraldri stóð og í kjölfarið. Þeirri spurningu er velt upp, hvað skipti raunverulega máli fyrir hamingju fólks og hvaða þættir hafa áhrif á okkar eigin hugsanir. Hversu nauðsynleg eru mannleg samskipti og mannleg tengsl almennt fyrir okkur? Hvernig tengjumst við fjölskyldu, vinum og náunganum? Skipta ókunnugir og saga þeirra okkur máli? Hvernig upplifum við okkur sem einstaklinga í fjöldanum? Leitum við að fegurðinni í eigin umhverfi? Tökum við eftir margbreytileika bæði hins smáa og stóra? Notum við og ræktum við eigin ímyndunarafl og sköpunarmátt?

Þú og ég. Við. Fólk eins og við.

Upplýsingar

Dagsetn:
18/03/2023
Tími:
14:00 - 17:00
Viðburður Category:

Staðsetning

Hannesarholt
Grundarstígur 10
Reykjavík ,
+ Google Map