Bókmenntakvöld – Pater Jón Sveinsson – NONNI
14/10/2013 @ 20:00 - 22:00
| ISK1.000… of ótrúlegur til að vera sannur; og of sannur til að vera trúlegur …”
Hannesarholt og Bókaútgáfan Opna efna til bókmenntakvölds í Hannesarholti mánudaginn 14. október klukkan 20:00. Aðgangseyrir er 1.000 kr. og greiðist við inngang. Gengið er inn frá Skálholtsstíg.
Fjallað verður um bókina Pater Jón Sveinsson – NONNI, eftir Gunnar F. Guðmundsson, sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita og bóka almenns efnis á síðasta ári. Brynhildur Pétursdóttir, alþingismaður og fyrrum forstöðumaður Nonnasafns á Akureyri mun ræða við Gunnar um pater Jón Sveinsson, ævisöguritunina og Nonnabækurnar sem báru hróður höfundar um veröld víða.
Jón Sveinsson lifði og hrærðist i bókum sínum, Nonnabókunum. En honum fannst hann jafnframt þurfa að fylgja sögum sínum eftir með því að ferðast um heiminn, hitta fólk og komast í lifandi samband við það. Þannig fékk einnig eirðarleysi hans „postullegan“ tilgang. Hann var heimsmaður án föðurlands, talaði mörg tungumál en sjaldnast sitt eigið móðurmál, rótslitinn einstæðingur með kjölfestu í voninni, alla sína ævi á leiðinni heim.
Þannig kemst Gunnar F. Guðmundsson sagnfræðingur að orði undir lok bókar sinnar um Jón Sveinsson sem árið 1870 yfirgaf föðurland og heimili og sneri einungis til baka sem gestur. Ævi þessa manns var einstök – andstæðurnar í lífi hans með ólíkindum. Dagbækur föður hans, sem dó meðan Jón var enn á barnsaldri, og sendibréf móður hans, lýsa á sláandi hátt endalausu basli, harðræði og veikindum en jafnframt einlægri löngun til að koma þeim börnum sem lifðu til manns. Þess vegna tekur móðir Jóns boði um senda hann utan til mennta aðeins 12 ára gamlan – og þau sáust aldrei framar.
Jón hlaut langa og stranga menntun og gekk inn í samfélag sem var eins fjarri íslenskum veruleika og hugsast gat. Hann gerðist kaþólskur prestur og kennari meðal Jesúíta og var sendur víða til starfa – en þó aldrei til Íslands eins og hugur hans stóð til. Iðulega átti hann í innri togstreitu sem birtist vel í dagbókarskrifum hans og bréfum. Sagnamaðurinn var aldrei langt undan, strax í æsku skrifaði hann sögur í stílakompuna sína. Köllun hans til ritstarfa, ásamt löngun til að hverfa aftur til bernskuáranna, varð að miklu höfundarverki og bækurnar um Nonna víðfrægar. Sögur hans voru þýddar á um 30 tungumál og komu út í stórum upplögum.
Jón lést í Þýskalandi árið 1944, þar sem sprengjurnar drundu allt um kring. Hann lifði alla ævi í heimi bernskunnar þrátt fyrir að vera einn víðförlasti og þekktasti Íslendingur síns tíma.