Töfrar náttúrunnar – vatnslitamyndir
25/02/2017 @ 15:00
Sýningaropnun laugardaginn 25. febrúar kl. 15
Marta Ólafsdóttir fór úr líffræðinni yfir í listina. Síbreytilega náttúruna fangar hún nú með vatnslitum; litir, birta og ímyndunarafl einkenna fallegar myndir hennar sem munu prýða veggi Hannesarholts frá 25. febrúar til 21. mars.
Þetta er fysta einkasýning Mörtu sem byrjaði seint að fást við myndlist. Marta er fædd í Reykjavík árið 1950, lærði líffræði í HÍ og lauk síðar prófi í kennslu- og menntunarfræðum frá Háskólanum í Uppsölum. Drýgstan hluta starfsævinnar hefur hún kennt líffræði í framhaldsskólum en einnig starfað við Kennaraháskóla Íslands. Marta hóf nám í teikningu í kvöldskóla Myndlistarskóla Reykjavíkur árið 2005, flutti sig yfir voginn yfir í Myndlistarskóla Kópavogs þar sem vatnslitirnir fönguðu hug og hönd. Listin hefur þó ætíð fylgt henni, hún lagði stund á píanóleik á yngri árum og hefur sungið í ýmsum kórum; Hamrahlíðakórnum, Fílharmoníu og Mótettukórnum.
„Að mála mynd veitir svipaða tilfinningu og að spila á hljóðfæri eða syngja í kór, maður einbeitir sér algjörlega að verkinu, gleymir sér og endurnærist á einstakan hátt“.