Wagner og Liszt: vinátta, óvinátta, vinátta
04/03/2018 @ 14:00
Fyrirlestur Richard Wagner félagsins
Árni Blandon fjallar um Wagner og Liszt: Vinátta, óvinátta, vinátta.
Í erindinu fjallar Árni Blandon um vináttu tónskáldsins Richard Wagners og píanósnillingsins og tónskáldsins Franz Liszt. Liszt auglýsti verk Wagners og styrkti hann fjárhagslega. Síðar súrnaði í vináttunni vegna maka og sambýlsikvenna snillinganna. Að lokum tókst Wagner að koma vináttunni á aftur með snilldarlega stíluðu bréfi til Liszts, þannig að útkoman er sú að ekki er nóg með að stytta af Wagner og eiginkonu hans (dóttur Liszts) sé fyrir utan Hátíðaleikhús Wagners í Bayreuth, heldur er samsvarandi stytta af Liszt þar líka.
Árni Blandon hefur kynnt óperur Wagners í Ríkisútvarpinu, Morgunblaðinu og hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Hann er með M.Phil próf í samanburðabókmenntum frá New York háskóla með áherslu á heimspeki, sálfræði og leiklist. Í Ríkisútvarpinu kynnti Árni á sínum tíma nær 200 söngleiki og auk þess hefur hann gert marga þætti fyrir Ríkisútvarpið þar sem erlend ljóðskáld eru kynnt en finna má þá þætti á vef RÚV. Einnig hefur Árni lesið ýmsar útvarpssögur á Rás 1. Hann lærði leiklist í London og starfaði í nokkur ár sem leikari við Þjóðleikhúsið og var meðlimur í Leikstjórafélagi Íslands.
Þegar Árni var gítarleikari í hljómsveitinni Töturum gerði hann lagið Dimmar rósir sem hefur verið hljóðritað í mörgum útgáfum og var valið eitt af Óskalögum þjóðarinnar á Ríkissjónvarpinu árið 2014. Sumar útgáfur lagsins má finna á U-tube.
Viðburðurinn er öllum opinn og án endurgjalds í boði Richard Wagner félagsins.