Grundarstígur

Grundarstígurinn er oftast talinn til Þingholta þó að nákvæm skilgreining á afmörkun Þingholtahverfisins hafi aldrei verið gefin og sé raunar óljós. Í hugum eldri Reykvíkinga ná Þingholtin tæpast upp fyrir Óðinsgötu eða suður fyrir Hellusund en ef marka má fasteignaauglýsingar ná Þingholtin nú orðið yfir allt sunnanvert Skólavörðuholt.

Hér verður leitast við að gera nokkra grein fyrir uppruna Þingholtahverfisins og sérstaklega þó torfbæjanna sem mörkuðu upphaf Grundarstígs og nágrennis hans og jafnframt húsasögu Grundarstígs.

Áður en kaupstaður var stofnaður 1786 tilheyrði Reykjavík Seltjarnarneshreppi eða Seltjarnarhreppi hinum forna sem svo er kallaður til aðgreiningar frá þeim litla hreppi sem síðar bar þetta nafn. Upp úr 1750 var ákveðið að þingstaður Seltjarnarneshrepps hins forna yrði fluttur úr Kópavogi, þar sem hann hafði verið í margar aldir, og inn til Reykjavíkur. Þar var þá reist lítið þinghús en í slíkum húsum voru haldin dómþing, hreppsfundir, manntalsþing o.fl. Húsið stóð upp í holtinu fyrir austan Lækinn, nokkurn veginn þar sem nú er Skólastræti 5b. Þar uppi í holtinu, sem þá var kallað Arnarhólsholt, var engin byggð fyrir nema tvær gamlar hjáleigur frá Reykjavík allmiklu sunnar, þær hétu Stöðlakot og Skálholtskot. Sú fyrri var þar sem nú er Bókhlöðustígur 6 og er þar enn gamall steinbær með þessu nafni en sú síðari var þar sem mætast Laufásvegur og Skálholtsstígur en síðarnefnda gatan ber einmitt nafn af Skálholtskoti.

Þinghús – Þingholt

Eftir að þinghúsið reis gerðist það næst að karl nokkur reisti sér lítinn torfbæ rétt fyrir ofan. Þetta var árið 1765. Og karlinn kallaði bæ sinn vitaskuld Þingholt vegna nálægðar þinghússins. Um og upp úr aldamótum 1800 var svo komin þarna allmikil torfbæjaþyrping, nokkurn veginn þar sem nú er Þingholtsstræti 1-7. Hún var kölluð einu nafni Þingholtabæirnir en hver bær hét sínu nafni. Litlu síðar voru reistir nokkrir torfbæir fyrir ofan Þingholtabæina, þar sem nú er Ingólfsstræti, og voru þeir þá nefndir Nýja-Þingholt eða Efra-Þingholt. Eftir þetta hvarf smám saman hið gamla nafn Arnarhólsholt en Þingholt kom í staðinn en er þó jafnan haft í fleirtölu, talað er um Þingholtin.

Tómthúsfólkið

Eftir því sem Reykjavík óx og dafnaði á 19. öld skapaðist þar meiri vinna fyrir svokallað tómthúsfólk. Þetta var fólk sem lifði ekki af landbúnaði eins og þorri Íslendinga hafði alltaf gert en var daglaunafólk í tilfallandi vinnu, einkum í pakkhúsum verslana og við útskipun og uppskipun en reri til fiskjar þess á milli. Tómthúsfólkið reisti sér framan af torfbæi í holtunum í kringum Reykjavík og meðfram ströndinni. Það var í Þingholtunum, Skuggahverfi og vestur í bæ meðan embættismenn, kaupmenn, verslunarþjónar og vel stæðir iðnaðarmenn bjuggu í timburhúsum í sjálfri kvosinni.

Torfbæirnir og traðirnar

Þannig risu fjölmargir torfbæir á strjáli í holtinu upp af og sunnan við Þingholtabæina, meðal annars á þeim slóðum sem Grundarstígur er núna. Í þeim flestum bjó fátækt fólk, sumt bláfátækt og húsakynnin voru eftir því. Við flesta bæina voru kálgarðar og smávegis grasnyt. Miklir móhlaðar við bæina settu svip á þá en mór, sem tekinn var úr Vatnsmýrinni og þurrkaður, var þá helsta eldsneyti Reykvíkinga.

Lóðirnar voru afmarkaðar með grjótgörðum og mynduðust þannig traðir, oft þröngar, milli bæja og lóða þar sem fólkið gat farið óhindrað ferða sinna. Til er uppdráttur af Þingholtunum sem Benedikt Gröndal skáld gerði árið 1876. Þar má t.d. greinilega sjá hvernig Spítalastígur og hluti af Grundarstíg eru komnir sem traðir milli nokkurra bæja sem þar standa. Segja má að gatnakerfið á þessum slóðum nú til dags, sem ókunnugum þykir nokkuð ruglingslegt, fylgi nákvæmlega þessu traðakerfi sem myndaðist án formlegs skipulags.

Grundarbæirnir

Árið 1849 fékk Ólafur nokkur Einarsson útmælda lóð sunnan við hús Friðriks snikkara eins og segir í skjölum Reykjavíkurbæjar. Friðrik þessi var Gunnlaugsson og bjó í Hinriksbæ eða Efstabæ sem reistur hafði verið 1838 og var þar sem nú er Spítalastígur 4. Nýi bærinn var hins vegar kallaður Grund og bendir það til að einhverjar grænar grundir hafi verið á þessum slóðum en gamla Arnarhólsholtið var annars talið fremur stórgrýtt og hrjóstrugt. Með bænum Grund frá 1849 er líklega komið upphafið að nafni Grundarstígs sem fékk það nafn þó ekki formlega fyrr en undir aldamótin 1900. Árið 1858 var hús Ólafs Einarssonar kallað Stóra-Grund og talið í Arnarhólsholti 28. Það stóð nokkurn veginn þar sem nú eru lóðirnir Grundarstígur 5, 7 og 9 og Bjargarstígur 3 og 5. Sigurður Hansson landpóstur sem bjó að Stóru-Grund árið 1883 reisti sér það ár timburhús á lóðinni sem kallaðist Grundarhús. Húsið stendur enn og er Grundarstígur 5a og mun vera elsta uppistandandi húsið við götuna.

Ástæðan fyrir því að nafn Grundar breytist í Stóru-Grund er vafalaust sú að þá voru komnir fleiri Grundarbæir í nágrennið. Þar má nefna Litlu-Grund við Bjargarstíg, Mið-Grund þar sem nú er Bergstaðastræti 22, þar bjó Sigurbjörg Sigurðardóttir sem talið er að Bjargarstígur sé kenndur við, og Syðstu-Grund við Grundarstíg 10. Ennfremur má nefna aðra Syðstu-Grund á Bergstaðastræti 28. Þar var lengi steinbær á baklóð sem var svo lágur að nánast mátti klappa á mæninn á þakinu þegar maður stóð við hann. Sú Syðsta-Grund, var rifinn upp úr 1980. Á Mið-Grund stendur hins vegar enn reisulegur steinbær og er nýbúið að gera hann upp.

Steinbæirnir

Steinbæjatímabilið í sögu Reykjavíkur er einstætt á Íslandi en á árunum eftir 1882 risu fjölmargir slíkir bæir og tóku yfirleitt við af eldri torfbæjum sem voru þá rifnir, meðal annars við Grundarstíg. Hliðarveggir þessara bæja voru úr tilhöggnum steini en gaflar ýmist úr steini eða timbri. Oft var hálfþil á göflum sem náði jafnlangt niður og gluggar en neðan þess var brjóst hlaðið úr steini. Inngangur var yfirleitt í timburskúr við annan hliðarvegg.

Einnig var byggt töluvert af einlyftum steinhlöðnum húsum með fullri veggjahæð og lofti. Sum voru öll hlaðin en önnur með timburgöflum, heilum eða hálfum. Þessi steinhlöðnu íbúðarhús og steinbæir urðu alls um 170 í Reykjavík og að mestu byggðir á árunum 1881-1895 en eru nú flestir horfnir.

Ástæðan fyrir þessu byggingarlagi var sú að árið 1881 hafði Alþingishúsið verið reist og komu fjórir sprenglærðir steinsmiðir frá Danmörku til að standa fyrir steinhöggi eftir kúnstarinnar reglum en grjótnámurnar voru við sunnanverða Óðinsgötu sem nú er. Um 100 reykvískir verkakarlar unnu við byggingu Alþingishússins og lærðu þeir að kljúfa grjót með járn- eða stálfleygum og sprengja það með púðri. Að lokinni byggingu hússins voru verkfærin seld á uppboði og keyptu karlarnir þau. Þeir fóru síðan að kjúfa grjót fyrir sjálfa sig í holtunum umhverfis Reykjavík og reisa sér steinbæi í stað torfbæja. Gott dæmi um reisulegan steinbæ, sem enn stendur, er Norður-Berg sem blasir við fyrir norðurenda Grundarstígs, byggður 1887 (Ingólfsstræti 23).

Berg

Eins og áður sagði dregur Grundarstígur nafn sitt af Grundarbæjunum. Önnur þyrping bæja við götuna var kennd við berg, líklega vegna kletta og stórgrýtis sem víða var á þessum slóðum.  Sá fyrsti hér einfaldlega Berg og var á lóðinni þar sem núverandi Grundarstígur 2-6 er. Síðar var sá bær oft nefndur Zakkaríasbær eða jafnvel Suður-Berg. Þar var steinbær áður en núverandi hús komu. Áður er nefnt Norður-Berg. Þar sem nú er Grundarstígur 11 voru svo tveir litlir bæir sem kallaðir voru Litla-Berg og Syðsta-Berg eða Syðra-Berg.

Sigga tólf og Kapteins-Gudda

Á Litla-Bergi var merkilegt kvennasamfélag um 1875. Húsráðandi var Níelsína Hansdóttir, systir Sigurðar á Stóru-Grund, en hjá henni bjuggu um skeið tvær kvensur. Önnur var kölluð Sigga tólf eða Sigga tólfræðingur en hin Kafteins-Gudda. Fékk hún viðurnefni sitt af því að hún efndi stundum til kynna við sjómenn af erlendum skipum sem höfnuðu sig í Reykjavík. Gerð var þjófaleit á Litla-Bergi 1876 og játuðu þær stöllur á sig þjófnaði á 13 stöðum í Reykjavík.  Jón Helgason ritstjóri skrifaði eitt sinn kostulega frásögn af þessum konum og þjófafélagi þeirra og nefnist hún Systur í syndinni.

Syðstibær

Næsti bær fyrir sunnan Berg var ýmist kallaður Syðstibær, Syðsta-Grund eða Halldórsbær og var kominn 1835. Hann er líklega fyrsti bærinn á slóðum núverandi Grundarstígs. Bærinn var á Grundarstíg 10 þar sem nú stendur Hannesarholt. Fyrstur byggði bæinn Arnljótur Jónsson en dóttir hans var Margrét dvergur sem fræg varð fyrir það Jón Hjaltalín landlæknir gerði á henni fyrsta keisaraskurðinn á Íslandi.

Seinna eignaðist Halldór Halldórsson bæinn en hann var utanbúðarmaður hjá Birni Guðmundssyni timburkaupmanni. Syðstibær var rifinn fyrir 1915 til að rýma fyrir húsi Hannesar Hafstein.

Aðrir bæir

Eru þá ónefndir bæirnir Garðbær sem var rétt fyrir sunnan Syðstabæ, nokkurn veginn í núverandi götustæði Skálholtsstígs, Suðurkot, þar sem nú er Grundarstígur 17, það virðist hafa verið reist 1835, einnig nefnt Valgarðsbær, og loks Siggukot eða Sigríðarstaðir á Grundarstíg 21. Þar bjó Sigríður Jónsdóttir sem var kúahirðir Reykvíkinga í Vatnsmýri.

Uppgangstímar

Um og upp úr aldamótum 1900 voru miklir uppgangstímar í Reykjavík. Byggð voru timburhús í stórum stíl víða í gömlu úthverfunum þar sem lágir bæir höfðu áður sett svip sinn á umhverfið en þeir týndu óðar tölunni. Þannig var um Grundarstíg sem varð nú regluleg gata. Virðulegir borgarar tóku nú að ásælast þarna lóðir og byggja sér hús.

Hús við Grundarstíg árið 1910

Í manntalinu 1910 voru voru talin 13 hús við Grundarstíg. Þau voru þessi:

Nr. 5A. Grundarhús. Timburhús í eigu Ólafs Theodórssonar frá Borðeyri, reist 1883. Hann bjó þó sjálfur ekki í húsinu, heldur Jón Hallsson daglaunamaður og kona hans Álfheiður Stefánsdóttir.
Nr. 5B. Timburhús Ólafs Þórðarsonar ökumanns hjá Edinborgarverslun og Sigurborgar Halldórsdóttur konu hans, reist rétt um 1910.
Nr. 6. Timburhús Stefáns Kr. Bjarnasonar skipstjóra, reist árið 1906 á lóð Bergs.
Nr. 7. Timburhús Högna Finnssonar trésmiðs og Þórunnar Jóhannesdóttur konu hans, reist 1906.
Nr. 9. Bjarki. Timburhús Árna Jóhannssonar bankaritara við Landsbankann og konu hans Önnu Maríu Jónsdóttur, reist 1903.
Nr. 10. Syðsta-Grund. Torfbær Guðmundar Nielsar Kristjáns Sigurðssonar sjómanns og konu hans Ingveldar Magnúsdóttur.
Garðbær (nú götustæði Skálholtsstígs). Torfbær Sigríðar Sigurðardóttur sem lifði af að reykja kjöt fyrir aðra, ullarvinnu og af ellistyrk.
Nr. 11. Litla-Berg. Steinbær frá 1884 í eigu Trésmiðafélagsins Völundar. Þar bjuggu Eyjólfur Bjarnason, fyrrverandi bóndi, daglaunamaður við höfnina, og kona hans Þórdís Sigurðardóttir.
Nr. 11. Syðra-Berg. Steinbær í eigu kaupmannanna og bræðranna Friðriks og Sturlu Jónssona.  Þar bjuggu 15 manns, mest einhleypingar.
Nr. 15B. Síloam. Íbúðar- og samkomuhús úr timbri, reist 1907 af Samúel Ögmundi Johnson trúboða. Er nú bakhús.
Nr. 17. Skálholt. Timburhús í eigu Magnúsar Stefánssonar, reist 1898. Hann bjó þó ekki sjálfur í húsinu heldur Guðmundur Gestsson daglaunamaður og Vilborg Bjarnadóttir kona hans.
Nr. 19. Viðey. Timburhús Magnúsar Stephensen frá Viðey og Áslaugar Stephensen konu hans. Reist árið 1905.
Nr. 21. Skáli. Timburhús Gunnars Þorbjörnssonar kaupmanns, reist árið 1893.

Þrjú timburhús til viðbótar voru byggð við Grundarstíg fram til 1915. Þau voru nr. 3 sem byggt var 1913 af kennurunum Hallgrími Jónssyni og Steingrími Arasyni, nr. 5 sem byggt var 1912 af Margréti Árnason, fráskilinni kaupmannskonu og nr. 15 sem byggt var 1911 af Guðmundi Magnússyni prentara (Jóni Trausta rithöfundi).

Úr timbri í steinsteypu

Þáttaskil urðu í byggingasögu Reykjavíkur árið 1915. Þá varð mikill eldsvoði í miðbænum og brunnu 12 hús til kaldra kola, þar af mörg stórhýsi. Reykvíkingar urðu eðlilega felmtri slegnir og sett var ný byggingareglugerð þar sem bygging timburhúsa var nánast bönnuð.

Eftir þetta hófst steinsteypuöld í Reykjavík, sem hefur staðið látlaust síðan, en talað er um tímabilið 1915-1930 sem tímabil steinsteypuklassíkur. Hús Hannesar Hafstein að Grundarstíg 10 er einmitt frá upphafsári þessa tímabils og raunar gott dæmi um veglegt hús af þeirri gerð.

Á næstu árum risu allmörg stór steinsteypuhús við Grundarstíg. Þar má nefna hús Thorsbræðra á Grundarstíg 24 frá 1918 sem lengi hýsti Verslunarskólann, tvö hús Hjálmtýs Sigurðssonar kaupmanns á Grundarstíg 2 og Grundarstíg 11, bæði reist á árinu 1919, sama ár reisti Einar Markússon ríkisbókara húsið á nr. 8, en hús Guðmundar M. Björnssonar á Grundarstíg 4 er frá árinu 1927.

Frá fúnkistímabilinu á kreppuárunum eru tvö steinsteypt hús við götuna, annað nr. 7 og hitt hús Hallgríms Jónassonar kennara nr. 17. Tvö hús eru svo fulltrúar seinni tíma. Stórhýsið að Grundarstíg 12 er frá árinu 1961 og fjölbýlishúsið nr. 23 frá árinu 1987.

Guðjón Friðriksson sagnfræðingur, ágúst 2010.