Bygging hússins og íbúar

Þetta hús, sem löngum hefur verið talið til fegurstu húsa borgarinnar, var byggt árið 1916 skv. fasteignaskrá og Einar Erlendsson húsameistari teiknaði húsið. Sá sem reisti húsið var gyðingurinn A. Obenhaupt sem heimildum ber ekki alveg saman um hvort var danskur, þýskur eða rússneskur. Hitt er vitað að hann vildi kalla húsið Villa Frieda. Ekki átti Obenhaupt húsið lengi því strax sama ár keypti  Ólafur Johnson húsið, kallaði það Esjuberg  og var húsið í eigu fjölskyldunnar fram undir 1950 (sjá grein í Helgarpóstinum frá 1987 Úr Rússahöndum til íslensks stóreignamanns)

Borgarsjóður keypti húsið árið 1952 og í framhaldi hafði Bæjarbókasafn Reykjavíkur (upphaflega Alþýðubókasafnið), síðar Borgarbókasafnið, aðsetur þar í tugi ára. Safnið opnaði í janúar 1954 og var þar til húsa þar til það flutti um mitt sumar árið 2000 í Grófarhús í Tryggvagötu. Sama ár keypti Guðjón Már Guðjónsson húsið (kenndur við Oz),  2002 komst það í eigu norska listamannsins Odd Nerdrum og árið 2007 eignaðist húsið Inn fjárfesting (í eigu Ingunnar Wernersdóttir).

Úr greininni Á göngu með Guðjóni úr Helgarpóstinum frá 1988:

Við erum nú komin á síðasta hluta götunnar og þar er húsið sem Borgarbókasafnið er í. Guðjón segir húsið upphaflega hafa verið byggt sem einbýlishús: “Það var danskþýskur kaupmaður, Obenhaupt að nafni, sem byggði húsið á fyrri heimsstyrjaldarárunum. Obenhaupt var gyðingur og þótti sérkennilegur maður. Hann ætlaði að kalla húsið “Villa Frieda”, en það var Einar Erlendsson húsameistari sem teiknaði húsið. Sjálfsagt hefur Obenhaupt haft hönd í bagga með hvernig húsið átti að líta út, en Einar Erlendsson teiknaði mörg falleg hús hér í borginni, meðal annars Gamla bíó. Obenhaupt flutti aldrei inn í húsið því hann lenti í einhverjum vandræðum út af fyrri heimsstyrjöldinni, fór úr landi og enginn vissi hvað af honum varð. Húsið eignaðist þá Ólafur Johnson, stofnandi O. Johnson og Kaaber, og skírði það “Esjuberg” eftir fæðingarstað móður sinnar, Esjubergi undir Esju. Þetta hús gengur ennþá undir því nafni. Ólafur og fjölskylda hans bjuggu lengi í þessu húsi en síðan keypti borgin það og hér hefur Borgarbókasafnið verið í nokkra áratugi. Þetta hús var örugglega með fínustu einbýlishúsum sem reist voru á þessum tíma.” Guðjón segir þá sögu af Obenhaupt að hann hafi víst aldrei getað átt húsgögn lengi: “Hann keypti húsgögn, seldi þau á uppboði hálfu ári síðar og keypti allt nýtt inn á heimili sitt. Þannig gekk það hvað eftir annað.”

Í útvarpsþættinum Flakk með Lísu Páls, 29. 9. 2007, spjallaði Lísa við Pétur Ármannsson arkitekt sem sagði m.a. um Þingholtsstræti 29a:

Þetta var jaðarinn á bænum á þeim tíma. Hérna voru tún og byrjað að brjóta þau undir stærri hús en samt fyrir tíma skipulags. Bara verið að prjóna við gamla bæinn. Ekki fyrr en eftir 1920 að menn fara að leggja niður fyrir sér hvernig bærinn ætti að vaxa og þá koma götur í versturbæinn eins og t.d. Öldugata, Ránargata o.fl. Laufásvegur fer að teygja sig í suður og Bergstaðastr. líka. Fyrst á 3. áratug sem skipulag mótar byggð. Húsið stendur ekki fast upp við götuna eins og hin húsin. Þetta er dregið til baka með virðulegum forgarði.

Húsið í dagblöðum liðinna tíma

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

  • 1916: Fasteignasala. Ólafur Johnson,ræðismaður hefir nýlega keypt hið nýbygða íbúðarhús A. Obenhaupt við Grundarstíg (frétt)
  • 1918: Brjóstnál, litil, hefir tapast frá versl. Björn Kristjánsson upp í Þingholtsstrætí (Esjuberg). Skilist í Esjuberg (augl.)
  • 1918: Um Raflýsingu í blaðinu Fréttum: Ýms hús sem eru eða hafa verið í byggingu munu fá raflýsingu, svo sem hús það er Thor Jensen lætur byggja uppi í Þingholtum, hús P. J. Thorsteinssonar, Esjuberg o. fl. – Fer líklega svo, að allur bærinn verður orðinn raflýstur með mótorum áður en vatnsaflið kemur til sögunnar (frétt)
  • 1918: Fegursta húsið í Reykjavík er án alls efa Esjuberg Ól. Johnson’s konsúls við Þingholtsstræti, er hann keypti hálfbygt af Obenhaupt slórkaupm. Ganga nú Reykvíkingar í hópum þangað og horfa á þessa hvitu höll, með mjallhvítum súlum og svölum, er svo er að sjá sem reist væri úr marmara eða mjallsteini. Verður þar fagurt um að litast, er laufprúðir viðir, blómrunnar og bergfléttur vaxa þar umhverfis og vefjast og hallast að hvítum múrunum (frétt)
  • 1918: 50 vagna af góðri mold óskar undirritaður að fá keypta. Ólafur  Johnson, Esjubergi, Þingholtsstræti (augl.)
  • 1924: Stúlku til eldhúsverka vantar nú þegar að Esjubergi í Þingholtsstræti (augl.)
  • 1928: Notuð ensk-íslensk orðabók óskast til kaups. Gíslína Kristjánsdóttir, Esjubergi, Þingholtsstræti (augl.)
  • 1929: Málarar. Tilboð óskast í að mála þessar húseignir: Hafnarstræti nr. 1 A og nr. 1 B, Lækjargata nr. 4,  Esjuberg við Þingholtsstræti. Nánari upplýsingar hjá undirrituðum. Ól. Johnson (augl.)
  • 1933 Stúlka, vön húsverkum, óskast nú þegar i vist að Esjubergi í Þingholtsstræti (augl.)
  • 1941: Stúlka óskast til hjóna, sem væntanleg eru frá útlöndum um mánaðamótin júli-ágúst. Uppl. gefur Margrét Johnson, Esjubergi, frá kl. 5-7 (augl.)
  • 1948: Jarðarför móður okkar og tengdamóður Ingibjargar Zakaríasdóttur fer fram frá Fríkirkjunni fjmmtudaginn 16. sept. n. k. og hefst með ‘húskveðju frá heimili hennar Bergi, Þingholtsstræti 29A kl. 1. e. h. Börn og tengdabörn (tilkynning)
  • 1952: Hús þetta, Berg, sem áður hét Esjuberg og stendur við Þingholtsstræti, hefur Reykjavíkurbær hug á að kaupa í því skyni, að þar verði Bæjarbókasafninu komið fyrir. Það hefur sem kunnugt er átt við mjög ófullkomið húsnæði að búa um langt skeið. Bæjarráð hefur heimilað borgarstjóra  að sernja við eiganda Bergs, Árna Jónsson, stórkaupmann, um kaup á húsinu í þessu skyni. í þessu húsi má búa vel í haginn fyrir Bæjarbókasafnið og byggingin hæfir því vel. Hús þetta átti lengi Ólafur Johnson, stórkaupmaður, er keypti það af Obenhaupt, er var þýzkur kaupmaður hér í bænum og byggði hann það. Hann gaf húsinu nafnið “Villa Frida”, en kona hans hét Frida. Obenhaupt fluttist héðan af landi burt (grein)
  • 1952: Bærinn hefur keypt Esjuberg undir bæjarbókasafn fyrir 1,5 millj, kr. Borgarritari upplýsti á bæjarstjórnarfundinum í gær, að bærinn hefði keypt húseignina Esjuberg við Þingholtsstræti fyrir 1 1/2 milljón króna, en þar er fyrirhugað að koma bæjarbókasafninu fyrir.  Sagði hann að aðeins örlitlar brey tingar þyrfti að gera á húsnæðinu og væri kostnaður við það óverulegur (frétt)
  • 1952: Esjuberg – ekki Berg. Eg hef heyrt að bærinn hafi keypt húseign við Þingholtsstræti, er áður hét Esjuberg, en nú kallað Berg, fyrir bæjarbókasafnið. Mér finnst sjálfsagt að bærinn láti húsið heita sínu upprunalega nafni, Esjuberg, enda er það miklu fegurra nafn en hið sviplitla heiti, Berg, þó ekki sé það ósnoturt. Veit ég að fjöldi fólks er mér sammála. Sem sagt, Esjuberg skal húsið heita, það er vel íslenzkt og staðarlegt nafn. S. Sv. (grein)
  • 1952: Fasteignakaup Reykjavíkurbæjar. 1. Þingholtsstræti 29A. Hefur síðustu árin verið kallað Berg, en hét áður Esjuberg. Húsið er nær 40 ára gamalt: Lóðarstærð 1196 fermetr. Lóðarverð að mati kr. 21.500,00 og húsverð kr. 81.300,00. Samtals fasteignamatsverð kr. 102.800,00. Kaupverð nú 1 1/2 milljón krónur. Húsið er byggt sem íbúðarhús, en nú keypt til bókhlöðu fyrir bæjarbókasafnið, og mun því þurfa allmikilla aðgerða. Kaupverðið er nær 15 falt fasteignamatsverð og má það teljast góð sala. Seljandi er Árni Jónsson heildsali (frétt)
  • 1953: Hrakningasaga bæjarbókasafnsins táknrænt dæmi. “Þegar stofnanir bæjarins kunna að fá eigið húsnæði til umráða, þá er svo til þess stofnað, aS bærinn er látinn kaupa á okurverði gamlar húseignir, sem einhverjir gæðingar Sjálfstæðisflokksins vilja losna við svo sem Esjuberg, er keypt var handa bæjarbókasafninu, og hús það við Sólvallagötu, sem húsmæðraskólinn er .” (grein)
  • 1954: Alþýðubókasafn Reykjavíkur opnað í dag eftir hálfs annars árs lokun (frétt)
  • 1958: Ólafur Johnson konsúll. Nokkrar afmælishugleiðingar (grein)
  • 1958: Ólafur Johnson stórkaupm. Minning (grein)
  • 1961:  Í bæjarbókasafninu starfa tólf bókaverðir – og Oberhaupt annast húsvörzluna. “Hvítt hús með hallarsniði, umlukt laufríkum trjám og litrikum blómabeðum. Inni er hátt til lofts, íburðarmiklar skreytingar í kverkum, dúnmjúk teppi gleypa skóhljóðið. Vafningsviður fikrar sig upp eftir stigaganginum og tignarlegur örn breiðir út volduga bronsvængi og hefur fisk í goggnum. Auk þess eru þarna í húsinu 71.719 bindi af bókum” (grein)
  • 1967: Ur Rússahöndum til íslensks stórefnamanns (grein)
  • 1978: Glæsilegt hús með hallarsvip (grein)
  • 1989: Vilhjálmur Finsen, stofnandi Morgunblaðsins, skrifaði um feril Obenhaupts á Íslandi. Vitnað er í hann í grein í Mbl. sem hét Verslað á hverju horni 18. 02.1989.
  • 2000: Dýrt að eiga Esjuberg áfram (grein)
  • 2000 Esjuberg senn auglýst til sölu (frétt)
  • 2000: Aðstandendur hæsta tilboðs í Esjuberg við Þingholtsstræti. Verði miðstöð fyrir unga frumkvöðla (grein)
  • 2000: Esjuberg selt undir frumkvöðlasetur  (frétt)
  • 2000: Gersemar Guðjóns Más – Um kaup Guðjóns á Esjubergi m.a.  (grein)
  • 2000: Óþekktur aðili sem vill kaupa Þingholtsstræti 29a kastar stríðshanskanum: 100 milljónir á borðið (frétt)
  • 2001: Frumkvöðlasetrið, grein e. Eggert Þór Bernharðsson. “Frumkvöðlasetrið ses. var formlega stofnað 29. maí 2001 og hefur aðsetur í Þingholtsstræti 29A, þar sem áður voru höfuðstöðvar Borgarbókasafns Reykjavíkur.” (grein)
  • 2002: Sala Esjubergs heimiluð. Kvöðum í kaupsamningi aflétt. Samþykkt var í borgarráði í gær að veita Frumkvöðlaaðstöðunni ehf.  leyfi til að selja eignina Esjuberg við Þingholtsstræti 29a sem íbúðarhús. Félagið, sem er í eigu Guðjóns Más Guðjónssonar, keypti  húsið af borginni árið 2000 með uppbyggingu frumkvöðlaseturs fyrir ungt fólk í huga. Í Morgunblaðinu í gær kom fram að norski listmálarinn Odd Nerdrum hefði fest kaup á húsinu og ætlaði að búa þar ásamt fjölskyldu sinni meirihluta ársins (frétt)
  • 2007: Nerdrum selur Ingunni Borgarbókasafnshúsið.  Listmálarinn Odd Nerdrum er fluttur heim til Noregs og hefur selt milljarðamæringnum Ingunni Wernersdóttur húsið að Þingholtstræti 29a. Nerdrum greiddi 100 milljónir fyrir húsið en söluverðið fæst ekki gefið upp (frétt)
  • 2008: Vill reisa jarðhýsi og bílskúr við Esjuberg. Skipulagsfulltrúinn í Reykjavík gerir ekki athugasemdir við áform Ingunnar Wernersdóttur um að reisa viðbyggingu við hið sögufræga hús Esjuberg á Þingholtsstræti 29a. Byggja á bílskúr og jarðhýsi með gufubaði og heitum potti (frétt)
  • 2008: Blæs nýju lífi í glæsivillu Húsið á Þingholtsstræti 29a verður endurnýjað í upprunalegri mynd. Fjárfestirinn Ingunn Wernersdóttir segist ætla að gera húsið að fjölskylduhúsi á ný. Ingunn kveðst þó ekki hafa ákveðið hvort hún búi þar sjálf (frétt)
  • 2008: Sérfræðingur og eigandi sögufrægs hús í Þingholtsstræti segja stækkun þess í höndum færustu fagmanna: Friðun útilokar ekki viðbyggingu við Esjuberg (frétt)
  • 2008: Má fleyga við Esjuberg Byggingarfulltrúinn í Reykjavík hefur gefið fjárfestinum Ingunni Wernersdóttur heimild til að fleyga úr klöppinni á lóðinni á Þingholtsstræti 29a. Ingunn ætlar að byggja sér niðurgrafið baðhús og bílskýli við hið sögufræga hús Esjuberg (frétt)