Í grein úr Lesbók Mbl.  þann 16. mars 1952 sem ber heitið Vindmylnurnar í Reykjavík settu sinn svip á bæinn má lesa að eitt af fyrstu tómthúsbýlunum sem reis fyrir ofan læk, var líklega reist á þeim slóðum þar sem nú stendur Þingholtsstræti 6.  “…Á þessari skák hafði fyrsta tómthúsbýlið fyrir ofan læk verið reist 1765, rétt hjá þinghúsi hreppsins, sem stóð syðst í þrætalandinu. Það var nefnt Þingholt og af því dró svo holtið nafn, en var áður einu nafni kallað Arnarhólsholt. Að vísu lagðist býli þetta niður 1771, en þremur árum seinna var annað býli reist þar litlu ofar, um það bil sem nú er Þingholtsstræti 6, og hét það líka Þingholt. “

Og Guðjón Friðriksson segir einnig í grein sinni Á göngu með Guðjóni í Helgarpóstinum 1988 að við endann á Þingholtsstræti, við Bankastrætið, hafi staðið röð af torfbæjum á síðustu öld. “Þeir hétu hinum ýmsu nöfnum, en voru kallaðir einu nafni “Þingholtsbæir”. Holtið, sem var hér, hét reyndar Arnarhólsholt, en á þeim tíma sem Reykjavík tilheyrði Seltjarnarneshreppi hinum forna hafði hreppurinn látið reisa þinghús á þeirri lóð, sem síðar stóð Gutenberg-prentsmiðjan í Þingholtsstræti 6, eða rétt þar fyrir neðan. Það mun hafa verið laust upp úr 1750. Rétt fyrir ofan þinghúsið fóru svo kotungar fljótiega að reisa kot sín og voru þau kölluð Þingholt eftir þinghúsinu. Smám saman breiddist nafnið svo út yfir allt hverfið.”

Þetta gamla hús við Þingholtsstræti 6 var upphaflega timburhús sem byggt var árið 1904. “Yngri hluti aftan við húsið er úr steini og byggður í tveimur áföngum, fyrst 1936 og síðan var byggt ofan á hann 1954.  Húsið var gagngert byggt til að hýsa prentsmiðjuna Gutenberg en hún tók til starfa árið 1905. Það voru einir 20 prentarar sem stofnuðu hlutafélag utan um prentsmiðjuna.  – Árið 1930 tók síðan Ríkisprentsmiðjan Gutenberg til starfa í húsinu og starfaði þar til 1975.” Þessi klausa er úr greininni  Gamla Gutenberg-húsinu breytt í íbúðir í Mbl. 12. nóv. 2002. Fram kemur í sömu grein að húsið sé B-friðað og þess vegna var því komið í sem upprunalegast form þegar því var breytt í íbúðir árið 2002.

Í útvarpsþættinum Flakk með Lísu þar sem Lísa Pálsdóttir ræðir við Guðjón Friðriksson þ. 22.9. 2007, segir Guðjón að húsið sé timburhús í Sweitzerstíl og að prentarar í Reykjavík hafi verið óánægðir með kjör sín. Að aðrar prentsmiðjur í Reykjavík á þeim tíma hafi verið með mikið af prentnemum en fullnuma prenturum sagt upp. Í framhaldinu fóru prentarar í verkfall en reistu síðan stórhýsi á þeirra tíma mælikvarða með gufuknúnum prentvélum af fullkominni gerð.


Húsið í dagblöðum liðinna tíma

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

  • 1902: Hér er getið um Þingholtsstræti 6 þó ekki hafi verið búið að byggja núverandi hús þar: Með Laura kom í verzlun Valdim. Ottesens 6. Þingholtsstræti 6. Ullarnærfatnaður fyrir fullorðna og börn. Sömuleiðis margeftirspurðu klæðin í kvenfatnaði, og m. fl. Alt selt með mjög góðu verði. (augl.)  – Líklega var þarna hús á undan Gutenberg…
  • 1905: Úr talsímaskrá: 71. Gutenberg, prentsmiðja, Þingholtsstræti 6 (talsímaskrá)
  • 1909: Nafnkort, trúlofunarkort, (inföld og tvöföld gylt og ógylt), boðskort, þakklætiskort, matseðla o.fl. hefur Prentsmiðjan Gutenberg nýlega fengið. Mjög mikið úr að velja sem ekki hefur áður fengist hér á landi. Einkar smekklega valin. Prentun á öllu smávegis fljótast og bezt af hendi leyst i Gutenberg-Prentsmiðju, Þingholtsstræti 6. Reykjavík (augl.)
  • 1916: Nýja Bókbandsvinnustofan tekur að sjer alla vinnu, sem að bókbandi lýtur og reynir að fullnægja kröfum viðskiftavina sinna. Bókavinir, lestrarfjelög og aðrir ættu því aS koma þangað. – Útvegar allar bækur er fáanlegar eru. Þingholtsstræti 6 (Gutenberg).  Brynj. Magnússon (augl.)  – (auglýsir fram til 1918)
  • 1920: Prentmyndasmiðjan. Ólafur J. Hvanndal, Þingholtsstræti 6, Gutenberg  (augl.)  – (auglýsir fram til 1929)
  • 1924:  Málverk eftir Sigríði Erlendsdóttur til sölu í Þingholtsstræti 6 (augl.)
  • 1927: Duglegur kaupamaður óskast. Uppl.  í Gutenberg, hæsta lofti, Þingholtsstræti 6 (augl.)
  • 1930: Ríkisprentsmiðjan Gutenberg Þingholtsstræti 6 – Reykjavík.  Annast prentun ríkissjóðs og stofnana og starfsmanna ríkisins. Leysir auk þess af hendi allskonar vandaða bókaprentun, nótnaprentun, eyðublaðaprentun, skrautprentun, litprentun 0. fl.  (augl.)
  • 1933: Ríkisprentsmiðjan Gutenberg tók til starfa í ársbyrjun 1930, en ríkissjóður hafði þá keypt af Hlutafélaginu Gutenberg prentsmiðjuvélar og -áhöld, ásamt húseigninni í Þingholtsstræti 6 (grein)
  • 1957: Ljóskopering. Landsstólpi h.f. Þingholtsstræti 6. Sími 82757 (augl.)
  • 1975:  Húseign til sölu Þingholtsstræti 6 Kauptilboð óskast i húseign prentsmiðjunnar Gutenberg, ásamt tilheyrandi eignalóð (augl.)
  • 1976: Sjómannablaðið Víkingur. Ritstjórn og afgreiðsla að Þingholtsstræti 6 (augl.) – (auglýsir fram til 1978)
  • 1976: Málverkasalan Þingholtsstræti 6. Seljum eingöngu verk eftir þekktustu listamenn landsins Opið virka daga 1-7, laugardaga og sunnudaga 1-5. Sími 19909 (augl.)
  • 1976: Konur-teiknivinna. Okkur vanta konur til starfa strax. Þurfa að hafa unnið eitthvað viö einfalda teiknivinnu, eða vera a.m.k. mjög handlagnar. Ekki yngri en 25 ára. Þurfa að geta ekið bil. Upplýsingar hjá Fjölprent h.f., Þingholtsstræti 6. Simi 19909 (augl.)
  • 1978: Bra – bra ódýru innréttingarnar í barna- og unglingaherbergi, rúm, hillusamstæður, skrifborð, fataskápur, hillur undir hljómtæki og plötur, málað eða ómálað, gerum föst verðtilboð ef óskað er. Trétak hf. Þingholtsstræti 6 sími 21744 (augl.) – (auglýsa fram til 1980).
  • 1979: I Þingholtsstrætinu sitja fimm söngelskir gullsmiðir við tvö borð: Aldursmunurinn er sextíu ár -en stemmningin fín hjá Leifi Kaldal og félögum (grein.)
  • 1979: Gleðileg jól. Montesa umboðið Vélhjólaverslun Hannesar Olafssonar Þingholtsstræti 6,  sími 16900 (augl.)
  • 1980: Bláber hf. Baby Björn Þingholtsstræti 6. Simi 29488 (augl.) – (auglýsa fram til 1986).
  • 1984. Atvinnuauglýsing frá Fjölprenti (augl.)  – (auglýsa fram til 1993)
  • 1987: Tískuverslunin Bazar opnar (augl.)
  • 1987: Linda snyrtistofa opnar í Þingholtsstræti 6 (augl.)
  • 1988: Ódýrabúðin, Þingholtsstræti 6, (augl.)
  • 1991: Samtök herstöðvaandstæðingar auglýstu Keflavíkurgönguna 1991 og voru með skrifstofu að Þingholtsstræti 6 (augl.)
  • 1994: Ný verslun Uno Danmark – Þingholtsstræti 6 (tilkynning)
  • 1995: 1995: Grein um Fjölprent og starfsemi þess (augl.)
  • 1996: 1996: Art tattoo. Þingholtsstræti 6. Sími 552 9877. Kiddý og Helgi tattoo (augl.) – (auglýsa fram til 2001)
  • 1997: Nema hvað opnað í Þingholtsstræti. Nýtt nemendagallerí Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Gallerí Ne,ma hvað, var opnað nýlega í Þingholtsstræti 6 (tilkynning)
  • 1999: Nýtt Gallerí verður opnað í dag, Gallerí Gutenberg, í kjallara gamla Gutenbergshússins að Þingholtsstræti 6 (tilkynning)
  • 2001: Þingholtsstræti 6. Reykjavík – Eignasalan-Húsakaup er nú með í sölu húseignina Þingholtsstræti 6 í Reykjavík (grein) – Góð lýsing á eigninni
  • 2002: Gamla Gutenberg-húsinu breytt í íbúðir (grein)