Bygging húsanna og íbúar fyrri tíma

Upphaflega hét þar Suðurbær og ekki ólíklegt að það nafn sé miðað við afstöðuna til býlisins í Þingholti (sbr. Pál Líndal. (1988). Reykjavík: Sögustaður við Sund. 3. b.: R-Ö bls. 184. Reykjavík: Örn og Örlygur).  Þar bjó lengi Helgi Jónsson, snikkari og þúsundþjalasmiður sem smíðaði svo mörg falleg hús í grenndinni.  Suðurbær var trúlega rifinn um 1880.

Húsið við Þingholtsstræti 7A er  byggt árið 1880 skv. ársskýrslu húsafriðunarnefndar árið 2007 og fasteignaskrá. Það var timburhús, reist af Brynjólfi Oddssyni bókbindara. Steinhúsið á bakvið þ.e. Þingholtsstræti 7B er hins vegar byggt árið 1921 skv. fasteignaskrá.

Flest það sem hér er skráð fyrir neðan á við um húsið nr. 7A að undanskildum litlum kafla um hús 7B hér neðar. Þó er hugsanlegt að einhverjar gamlar blaðaauglýsingar hafi flotið með sem eiga við 7B án þess að það sé sérstaklega tekið fram.

Í útvarpsþættinum Flakk með Lísu Pálsdóttur og Guðjóni Friðrikssoni þ. 22.9. 2007 segir Guðjón: “Hús nr 7, lítið grænt hús, mjög fallegt frá 1880, Brynjólfur Oddsson reisti það bókbindari, alþýðuskáld, Dátarímur frægastar um danskan herflokk sem var sendur í tengslum við þjóðfundinn – voru hér heilan vetur og Íslendingar gerðu mikið grín að.” Í rímunum segir m.a.

Hjá því reistu rauðan strók,
er rambaði á einum fæti;
var í holum viðarhrók
vökumannsins sæti.

Þegar mæddi sorg og sút
af settum vöku-pressum,
í grimmviðrunum gægðust út
úr gapastokki þessum.

( Heimild: 200 ára saga þurrkuð út, Þjóðviljinn 28. nóvember 1985)

Og Guðjón heldur áfram í útvarpsþættinum og segir um bakhúsið 7B: “Víða bakhús í Þingholtunum – kemur oft í ljós í undirgöngum skemmtilegir hlutir. Húsið á bakvið nr. 7, mjög hátt og mjótt, Reykvíkingar kölluðu þetta “orgelið”. Útlend stemming – mjög mjótt og gluggalaus gaflinn og líka á bakhliðinni. “

Í grein Guðjóns Friðrikssonar Töfrar höfðu gripið í Þjóðviljanu frá 1978 segir svo:  “Þingholtsstræti 7 er veglegt og vel við haldið tvilyft timburhús á kjallara sem reist var árið 1880. Þorvaldur póliti mun hafa búið i húsinu fyrir aldamót en við manntalið 1. desember 1901 eru þar 17 manns. Þar skal fyrsta fræga telja, nefnilega Jakobínu Jónsdóttur Thomsen húsmóður, 65 ára ,styrkta af rikissjóði og landsjóði. Hér er engin ö nnur en ekkja Grims Thomsens, dóttir Jóns i Reykjahlið í Mývatnssveit. Hún hefur haft hjá sér í húsinu sveit ungra manna og kvenna. Þar eru bræðurnir Benedikt barnakennari og Baldur stud.art. Sveinssynir frá Húsavík. Benedikt faðir Bjarna forsætisráðherra, var þá 23 ára en Baldur, síðar ritstjóri, aðeins 18 ára gamall. Þarna var lika Guðrún Sigriður Jóhannsdóttir námsmær frá Borg á Mýrum og Sólveig Pétursdóttir námsmær frá Gautlöndum. Siðast en ekki sist dvelur hjá Jakobinu Andrés Björnsson stud.art., síðar leikari og skáld. Hann er sagður aðkomandi frá húsi Sigvalda snikkara við Túngötu. Í Þingholtsstræti 7 eru líka fjölskyldur Sighvats Árnasonar, sem lifir á eignum sínum, og Þórðar Magnússonar daglaunamanns. Meðal annarra leigjenda eru menntaskólapiltarnir Vernharður Þorsteinsson og Þórður Oddgeirsson og Oddur Steingrímur Ívarsson skósmiðameistari.”

Myndin af Þorvaldi polítí er fengin úr Tímanum, 4.8.1974.

Það er vart hægt að skilja við íbúa fyrri tíðar í Þingholtsstræti 7 án þess að minnast á hjónin Sigurð Halldórsson og Ingibjörgu  Magnúsdóttir sem bjuggu allan sinn búskap í Þingholtsstræti 7, frá 1916 og fram á sjötta áratug 20. aldar. Ingibjörg lést 1949 en Sigurður 1952. (Sjá minningargrein um Ingibjörgu í Vísi 17. nóv. 1949)


Húsið í dagblöðum liðinna tíma

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

Herbergi voru oft auglýst til leigu í Þingholtsstræti 7 fyrstu áratugi 20. aldar en aðeins örfáar þeirra eru birtar hér.

  • 1896: Skrifstofa Sunnanfara og ábyrgðarmaður Sunnanfara, Þorsteinn Gíslason,  eru  í Þingholtsstræti 7 (augl.)
  • 1897: 2-3 herbergi eru til leigu í Þingholtsstræti 7 frá 14. maí eða 1. júní næstkomandi (augl.)
  • 1899: Þrjár afbragðs lands- og sjávarjarðir á Vestfjörðum fást bygðar og keyptar. Upplýsingar gefur S. Sveinbjörnsgon. Þingholtsstræti 7 (augl.)
  • 1902: Til leigu nú þegar loftherbergi með geymslurúmi í Þingholtsstræti 7. Útg. vísar á (augl.)
  • 1902: Með afarlágu verði fæst “Úlster” óbrúkuð og brúkuð föt í 7 Þingholtsstræti 7 (augl.)
  • 1904: Tvö herbergi fyrir einhleypa til leigu frá 1. október í Þingholtsstræti 7. Fæði selt á sama stað (augl.)
  • 1906: Harmoniumspil kennir Gunnar Sæmundsson, Þingholtsstræti 7 (augl.)
  • 1908: Sigrún Bergmann nuddlæknir Þingholtsstræti 7 heima til viðtals kl. 10-11 og 4-5. Þar fást og naglhreinsanir og andlitsböð með nuddi og strokum (augl.)
  • 1910: Undirrituð tekur að sér eins og að undanförnu allskonar fatasaum. Karólina Sigurðardóttir Þingholtsstræti 7 (augl.)
  • 1910: Undirrituð tekur að sér allskonar saum á kven- og barnafötum. Guðný Jörgensdóttir Þingholtsstræti 7 (augl.)
  • 1911: Hljóðfærasláttur. Undirritaðir taka að sjer að sjá um hljóðfæraslátt (Fiðla & Klaver) við dansleiki hjer í bænum í vetur. Til viðtals kl. 7-8 síð. Þingholtsstræti 7. P. O. Bernburg. Jón Ívarsson (augl.)
  • 1912: Í Þingholtsstræti 7. er til sölu nýr og brúkaður fatnaður, sömuleiðis búsáhöld. Tekinn til útsölu fatnaður (augl.)
  • 1913: Trjesmiður vanur óskar eftir atvinnu um tíma, nú þegar. Uppl. í Þingholtsstræti 7 (niðri) – (augl.)
  • 1913: Pakki er var bundinn ofan á koffort, merktur: Herdís Jónsdóttir Borðeyri, er fór með Skálholti í maí þ. á., hefir tapast. Honum var skipað upp í Stykkishólmi og stóð á bryggjunni 2-3 daga vegna veikinda farþegans, er hafði hann meðferðis. í pakkanum var m. a.: 2 karlm.fataefni, 3 saumaðir kjólar, 1 herðasjal, 1 dagtreyja, 1 sængurver, 1 1/2 pd. stumpasirz, 6 álnir af svörtu klæði, karlmanns hálslín o. m. fl. – Þeir sem kynnu að vita eitthvað um pakka þennan eru vinsamlega beðnir að gjöra undirritaðri viðvart. Valqerður I. Brandsson, Þingholtsstræti 7. Reykjavík  (augl.)
  • 1913: Hjá undirritaðri fást saumaðir dömukjólar og dragtir. Einnig allskonar barnaföt. Valgerður Jónsdðttir Þingholtsstræti 7 (augl.)
  • 1914: Kven-grimudansbúningur fæst keyptur eða lánaður í Þingholtsstræti 7. Sömuleiðis fæst þar keyptur allskonar fatnaður nýr og brúkaður (augl.)
  • 1914: Grammophon með 24 plötum, mest íslenskum lögum, er til sölu í Þingholtsstræti 7 niðri (augl.)  http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1112857
  • 1914: 2 herbergi, fremur stór, mega vera í kjallara (góðum), til iðnaðarreksturs, vantar mig undirritaðan strax. Carl Lárusson, Þingholtsstræti 7 (augl.)
  • 1916: Snemmbær kýr til sölu. Sig. Halldórsson i Þingholtsstræti 7 (augl.)
  • 1914: Í Þingholtsstræti 7 eru til sölu fermingarkjólar og allskonar fatnaður, nýr og gamall (augl.)
  • 1916: Dugleg telpa um 14 ára óskast í vist nú þegar til septemberloka á gott heimili. Mjög hátt kaup. Uppl. í Þingholtsstræti 7 uppi (augl.)
  • 1918: Kaupamann vantar á gott heimili í Borgarfirði. Uppl. hjá Sig, Halldórssyni, Þingholtsstræti 7 uppi (augl.)
  • 1918: Salome Olafsdóttir frá Stapadal í Arnaríirði er vinsamlega beðin að koma til viðtals í Þingholtsstræti 7 hið fyrsta (augl.)
  • 1918: Tilboð óskast i 1-2000 rjúpur Sig. Halldórsson Þingholtsstræti 7 (augl.)
  • 1918: Drengur 11-14 ára óskast til að sitja hjá norður í Hrútafirði. Uppl. gefur Krismundur Ólafsson, Þingholtsstræti 7 uppi (augl.)
  • 1918: Vetrarsjal tapaðist á leiðinni frá Þingvöllum til Reykjavikur. Skilist í Þingholtsstræti 7 (augl.)
  • 1919: Af sérstökum ástæðnm er ný sumarkápa og nýr sumarhattur til sölu í Þingholtsstræti 7 (augl.)
  • 1926: 90 ára verður í dag ekkjan Anna Gísladóttir, Þingholtsstræti 7. Óvenju ern af þeim, sem komnir eru á þann aldur, hefir sjón og heyrn og gengur um sem ung væri (augl.)
  • 1935: Sigurður Halldórsson trésmíðameistari sextugur (tilkynning)
  • 1936: Er komin heim. Tek sauma eins og áður. Jónína Þorvaldsdóttir, Þingholtsstræti 7 (augl.)
  • 1945: Sigurður Halldórsson trésmíðameistari 70 ára (tilkynning)
  • 1951: Slökkviliðið kvatt út tvisvar í gær. Slökkviliðið var tvisvar kvatt út í gærdag. Í fyrra skiptið í Þingholtsstræti 7, en þar hafði kviknað í mótor á trésmíðaverkstæði. Skemmdir urðu engar á húsinu (frétt)
  • 1980: Baby Björn – Bláber hf. Þingholtsstræti 7, Sími 29488 (augl.)
  • 1986: Verkstæðið Þingholtsstræti 7 B: Nýstárlegar vörur úr ull og lambsskinni (augl.)
  • 2001: Blossandi rómantík í Þingholtunum (grein)

  • 2008: Húsin við Þingholtsstræti 7, Mjóuhlíð 4 og 6 og Birkimel 8 hlutu viðurkenningu vegna endurbóta á eldri húsum (frétt)
  • 2009: Húsið að Þingholtsstræti 7 er frá árinu 1880. “Nýr eigandi ætlaði að skipta um bárujárn og þá komu í ljós merki eftir mjög fallega gluggaumgjörð sem við köllum bjóra. Þá ákvað eigandinn að fara í uppruna hússins. Húsið var gert mjög fallega upp samkvæmt þeim ummerkjum sem fundust undir járninu.” (grein).


Þingholtsstræti 7B

  • 1923: Góður látúnshengilampi til sölu Þingholtsstræti 7B (augl.)
  • 1929: Gott og ódýrt fæði fæst í Þingholtsstræti 7 (steinhúsinu), uppi. (augl.)
  • 1930: Tvö herbergi og eldhús til leigu í Þingholtsstræti 7 B. Uppl. k l . 7-8 í kveld (augl.)