Bygging núverandi húss – eldri hús

Húsið við Grundarstíg 11 var byggt af Hjálmtý Sigurðssyni (sbr. minningargrein í Mbl. 1990) árið 1919 skv. fasteignaskrá. Þetta er stórt og myndarlegt hús en áður fyrr var á sama stað bær sem hét Litla-Berg eða Syðsta-Berg. Það var upphaflega torfbær en síðar steinbær. Um þetta má lesa í skemmtilegri grein eftir Guðjón Friðriksson, Frá Kafteins-Gunnu til Thorsbræðra, í Lesbók Mbl. frá 1990. Þar koma m.a. við sögu tvær merkilegar konur, þær Níelsína Hansdóttir og Guðrún Halldórsdóttir (Kafteins-Gudda).

Fróðleiksmolar

Í þessari sömu grein Guðjóns kemur einnig fram að meðal nafnkunnra manna sem bjuggu á Grundarstíg 11 fyrr á öldinni voru m.a. Magnús Sigurðsson bankastjóri Landsbankans, Magnús Jónsson dósent og alþingismaður og Friðrik Magnússon heildsali og kaupmaður. Hann kom raunar einnig við sögu á Grundarstíg 10.

Sjá má viðbyggingu við Grundarstíg – lítið og mjótt hús þar sem þýski listamaðurinn Dieter Rot bjó er hann dvaldi á Íslandi og ku hafa haft mikil áhrif. (1)

Árið 1923 varð heilmikill eldsvoði í húsinu. Eigandi þess var þá Kristján Einarsson kaupmaður sem hafði nýlega keypt húsið af Hjálmtý Sigurðssyni og var fjarverandi þegar bruninn átti sér stað. Sjá frétt.  Það varð heilmikið tjón hjá mörgum og síðar kom í ljós að mest af því sem varð eldsvoðanum að bráð var að mestu óvátryggt – sjá frétt.


Starfsemi og verslanir í húsinu í gegnum tíðina

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

Eins og í öðrum nálægum húsum var mikið leigt út af herbergjum/íbúðum á fyrstu áratugunum eftir byggingu hússins.

Ef það er rétt að núverandi hús hafi verið byggt 1919, þá var þarna hús á undan sem einnig bar númerið 11 því sjá má a.m.k. tvær blaðaauglýsingar frá 1915 og 1917 sem tengjast húsnúmerinu og til gamans er þeim leyft að fljóta með hér.

 • 1915: TAPAÐ — FUNDIÐ. Þú, sem tókst ullarpokann á þilinu á Grundarstíg 11, ert beðinn að skila honum þangað aftur tafarlaust, annars verður verra úr, því þú þektist (augl.)
 • 1917: Tíu króna seðill tapaðist 14. þ.m. Skilist á Grundarstíg 11 gegn fundarlaunum (augl.)
 • 1920: Auglýsing í samtalsformi: Hvar verzlar þú? Eg verzla við Theodór Sigurgeirsson á Grundarstíg 11. Er gott að verzla við hann? Já. Sízt er hann verri en hinir. Hann er líka alþýðumaður. Nú, já. já. Eg held eg fari þá þangað (augl.) – Sjá mynd af auglýsing hér til hliðar.
 • 1920:  Theódór flytur verslun sína af Grundarstíg 11 á Óðinsgötu 30 og auglýsir: „Fylgið manninum, ef ykkur líkar að eiga viðskifti við hann, en annars búðinni.“ (augl.)
 • 1921: Auglýsing m.a. frá verslun Hjálmtýs Sigurðssonar, Grundarstíg 11 (augl.)
 • 1921: Verslunin Grundarstíg 11: 15% afslátt frá í  dag og til jóla gefur verslunin á Grundarstíg 11 á öllum niðursoðnum ávöxtum, fiskibollum, sardínum, smásíld, soyum, sætri dósamjólk o, fl. Öll kornvara, sykur, kaffi, steinolía, lúðuriklingur, harðfiskur} íslenskt smjör, hangið kjöt. Kæfa o. fl. er selt þar með lægsta verði (augl.)
 • 1922-1928: Verslunin Skálholt 19 (augl.) Hún virðist vera þarna í nokkur ár en auglýsir svo árið 1925 sem „verslunin áður Skálholt“ (augl.), heldur síðan áfram sem Skálholt til 1928 ef miðað er við auglýsingar.
 • 1922: Allur kvenfatnaður og karlmannsföt eru saumuð. Hreinsuð og pressuð föt, á Grundarstíg 11, efstu hæð  (augl.)
 • 1922: Unglingur getur strax fengið atvinnu við sendiferðir og þessháttar. Grundarstíg 11 (augl.)
 • 1923: Nokkrar stúlkur geta fengið tilsögn í kjólasaum hálfan daginn; þurfa ekki að leggja sér til efni, ef óskað er. Ingibjörg SigurSardóttir, Grundarstíg 11 (augl.) Auglýsir einnig enska plyseringu árið 1924 (augl.)
 • 1923: Togaraútgerðarmenn o.fl. Afnotarjettinn að teikningum af uppskipunarvjel (fyrir fisk og aðra stykkjavöru) vil jeg selja. Vjelin er knúin með rafmagni. Og afkastar 25 tons pr. kl.st. Ólafur Einarsson, Grundarstíg 11. Sími 1081 (augl.)
 • 1923: 20 hestar af þurri og grænni háartöðu er til sölu nu þegar. Kristján Einarsson, Grundarstíg 11 (augl.)
 • 1923: Kelvin mótorar hjá Ólafi Einarssyni (augl.)
 • 1923: Ólafur Einarsson auglýsir kennslu í vélteikningu fyrir járnsmiði og vélstjóra (augl.)
 • 1924: Tilkynning: Í  gær opnaði jeg sölubúð á Grundarstíg 11. — Kornvörur Kaffi, Sykur, Tóbak, Hreinlætisvörur og margt fleira. — Vörur sendar heim, ef óskað er. — Góðar vörur. — Sanngjarnt verð. Virðingarfyllst, Sími 432. Jörgen Þórðarson (augl.)
 • 1924: Stefán Einarsson mag. art safnar gögnum um Meistara Eirík Magnússon bókavörð í Cambridge – gögn má senda á Grundarstíg 11 (augl.)
 • 1925: Á Grundarstíg 11, uppi, er tekinn saumaskapur, stykkjuð og pressuð föt (augl.)
 • 1925: Þið, sem þurfið að láta þvo loft og láta mála fyrir krossmessu, ættuð að  finna mig strax. L. Jörgensen, Grundarstíg 8 (augl.)
 • 1926: Sjerlega góðar íslenskar kartöflur og gulrófur fást nú og framvegis, altaf nýuppteknar á Grundarstíg 11. Sími 432 (augl.)
 • 1927: Allskonar hannyrðakennslu og áteikningu tek eg að mér frá 1. okt. — Til viðtals frá kl. 1 á Grundarstíg 11, þriðju hæð. — Sími 590. Unnur Ólafsdóttir (augl.)
 • 1927:  Minnist viðskiftavina minna með þakklæti fyrir liðið ár, óska öllum gleðilegs nýárs. Einar J. Ólafsson, Grundarstíg 11 (augl.)
 • 1929: Er flutt á Grundarstíg 11. Ása Ásmundsdóttir, ljósmóðir  (augl.)
 • 1929: Biklingur, harðfiskur, þurkaður saltfiskur og ódýrt saltkjöt, fæst a Grundarstíg 11. Simi 832 (augl.)
 • 1929: Hvar fæ ég ódýrust jólatré? Jólakerti, jólatrésskraut og leikföng? Þið skuluð reyna á Grundarstíg 11 (augl.)
 • 1929: Tek að mér lestur og kenslu í tungumálum og stærðfræði. Einar Guðnason, cand. Theol.  Til viðtals Grundarstíg 11, kl. 11—1 og 7—8 síðd. Sími 832 (augl.)
 • 1930: Böðvar Jónsson kaupmaður virðist búa á Grundarstíg og vera með verslun þar a.m.k. 1929-30 sbr. auglýsingu um verslanir sem selja Sunnu ljósaolíu (augl.)
 • 1930 – 1935: Friðrik Magnússon heildsala (stofnuð 1916) – allskyns vörur (augl.) Einnig efnagerð. Auglýsir a.m.k. til 1935
 • 1931: Matvöruverslun er opnuð á Grundarstíg 11. Til þess að kynna verð og vörugæði, þá gefum við 1/2  pund af suðusúkkulaði með hverri 5 kr. verslun í nokkra daga. Fr. Steinsson. Sími 1295 (augl.)
 • 1931: Frá Alþýðubrauðgerðinni. Nýja brauða- og mjólkurbúð hefir Alþýðubrauðgerðin opnað á Grundarstíg 11. Þar fæst volg nýmjólk á hverjum morgni frá Guðmundi Ólafssyni i Austurhlíð. Enn fremur alls kon- brauð og kökur, rjómi, öl, gosdrykkir og allskonar sælgæti (augl.)
 • 1931: Næturlæknir er í nótt Karl Jónsson, Grundarstíg 11, sími 2020 (augl.) – Sjá má auglýsingar um næturlækninn í nokkur ár.
 • 1931: Frétt um innbrot í útsölu Alþýðubrauðgerðarinnar Grundarstíg 11 (frétt)
 • 1931-32: Jón Gunnarsson auglýsir enskukennslu. (augl.)
 • 1931: Magnús Finnbogason auglýsir tungumálakennslu á Grundarstíg 11 (augl.)
 • 1932: Tungamálanámskeið Þórhalls Þorgilssonar (augl.)
 • 1933: Geri uppdrætti að alls konar húsum, útboðslýsingar, kostnaðaráætlanir og einnig burðarmagnsreikninga fyrir járnbenta steinsteypu. Dipl. ing. Einar Sveinsson, húsameistari, Grundarstíg 11. Til viðtals kl. 5-7 (augl.)
 • 1933: Í dag verður opnuð ný verslun á Grundarstíg 11 með alls konar mat- og hreinlætisvörur, tóbak og sælgæti. Alt ný-innkeyptar, fyrsta flokks vörur, sem seljast með sanngjörnu verði. Reynið viðskiftin strax í dag! Virðingarfylst, Verslunin Dimon. Ólafur Benediktsson, Sími 4299 (augl.)
 • 1934: Friðrik Magnússon og Co. auglýsir SABBmótora (augl.)
 • 1934: Beztir. Fallegastir. Ódýrastir. Grundarstíg 11. – Mynd af stól – hafa með (augl.)
 • 1934: Dívanar, dívanskúffur, madressur. Bezt og ódýrast á Grundarstíg 11 (augl.)
 • 1934: Túnþökur til sölu. Sanngjarnt verð. — Uppl. Grundarstíg 11, efstu hæð (augl.)
 • 1934: Góð kaup. Ef þér viljið gera góð kaup á góðum húsgögnum, þá komið á Grundarstíg 11. Höfum til nokkra stóla sem við seljum með tækifærisverði (augl.)
 • 1935-1940: Glæný smálúða. Fiskverslunin Hrönn, Grundarstíg 11. Sími 4907 (augl.). Auglýsingar birtast til 1940.
 • 1936: Tek að mjer bókhald fyrir verslanir, samningagerðir o. fl. Unnið fljótt og vel. Sanngjarnt verð. Uppl. í síma: 3961 og eftir kl. 7 Grundarstíg 11, 2. hæð (augl.)
 • 1937: Aðstoð við framtalsskýrslur: Ragnar Kristjánsson (augl.)
 • 1938-1939: Matsala mín er flutt á Grundarstíg 11. Get bætt við nokkrum í fast fæði. Sel smurt brauð eftir pöntunum. Hefi skemtilegt og gott húspláss til veisluhalda, bæði fyrir fjelög og aðra sem það vantar.— Ódýr en góð framreiðsla. – Komið og reynið. Virðingarfylst Anker Jörgensen (augl.)
 • 1938: Matreiðslunámskeið og veisluþjónusta á vegum Ankers Jörgensens (augl.)
 • 1941: Frétt – brot gegn húsaleigulögum (frétt.)
 • 1942: Heildverslun Guðm. H. Þórðarsonar (augl.)
 • 1942: Saumastúlkur 2—3 stúlkur vantar á saumastofu. Ennfremur eina stúlku sem kann að sníða kjóla, kápur o. fl. Hátt kaup — og viku sumarfrí á kostnað saumastofunnar. Uppl. gefur undirrituð. KRISTlN LÁRUSDÓTTIR. Grundarstíg 11. — Sími: 5369 (augl.)
 • 1944: Blindrafélagið kaupir Grundarstíg 11 í desember 1943 (frétt) og blindravinnustofan tekur greinilega til starfa 1944 – burstagerð. Nokkrir félagsmenn búa þarna einnig gegn vægri húsaleigu sbr. frétt frá 1952.  Árið 1953 vinna þar 9 blindir og 1 sjáandi.
 • 1944: Leikföng: Bílar, hjólbörur flugvélar 0. fl. Seljum við mjög ódýrt í kvöld. Aðeins lítið eftir óselt. Blindravinnustofan, Grundarstíg 11. (Fiskverzlunin Hrönn) (augl.)
 • 1945: Fundur byggingarnefndar Reykjavíkur 30. ágúst 1945 : Aftur á móti frestaði nefndin að taka ákvörðun um beiðni Blindrafélags Islands um að mega byggja við hús sitt, Grundarstíg 11, og gera útlitsbreytingar á gamla húsinu (frétt.) Líklega var viðbyggingin leyfð 1947 sbr. þessa frétt.
 • 1949: Snyrtistofan Grundarstíg 11 (augl.)
 • 1956: Að Grundarstíg 11 – Skemmtileg grein úr Þjóðviljanum um blindravinnustofuna o.fl. að Grundarstíg 11  í tilefni af árlegum merkjasöludegi og söfnun fyrir byggingu húss við Hamrahlíð/Stakkahlíð (sjá grein) og önnur úr Vísi af sama tilefni (sjá grein).  Loks er grein úr Mbl. frá sama ári en um jólaleytið (sjá grein)
 • 1958: Orgelkennsla handa byrjendum (augl.)
 • 1961: Útlend kona tekur nokkra menn í fæði (augl.).
 • 1961. Nýtt blindraheimili við Hamrahlíð var vígt 18. maí 1961 og þá var vinnustofan að Grundarstíg lögð niður (grein)
 • 1962: Afgreiðsla bókaútgáfunnar Eddu  (augl.)
 • 1962: Afgreiðsla Frúarinnar, íslensks kvennablaðs er á Grundarstíg 11  (augl.)
 • 1963: Afgreiðsla – Skrifstofustörf hjá Heimilisútgáfunni (augl.)
 • 1965: Auglýsinga og skiltagerðin er flutt að Grundarstíg 11 (augl.)
 • 1968: Mósaik og keramikdeild  Myndlistarskólans í Reykjavík – hluti hennar til húsa á Grundarstíg 11 (grein)
 • 1969: Ragnar Kjartansson myndhöggvari með vinnustofu á Grundarstíg 11  (grein)
 • 1970: Keramiknámskeið fyrir fullorðna  (augl.)

Heimildir:

1. Guðjón Friðriksson. (1990, 20. október).  Úr sögu Grundarstígs:  Frá Kafteins-Guddu til Thorsbræðra. Lesbók Morgunblaðsins. Sótt 27. ágúst 2010 af http://www.timarit.is