Bygging núverandi húss

Húsið að Grundarstíg 15 er byggt árið 1926 skv. fasteignaskrá en þær upplýsingar eru rangar. Líklegast er að það hafi verið byggt árið 1911, því það ár samþykkti bæjarstjórn Reykjavíkur brunabótavirðingar m.a. fyrir hús Guðmundar Magnússonar að Grundarstíg 15 (frétt) og skv. grein í Eimreiðinni árið 1919 kemur einnig fram að Guðmundur Magnússon hafi látið byggja húsið árið 1911 (grein).

Fróðleiksmolar

Ef gripið er niður í grein Guðjóns Friðrikssonar Úr sögu Grundarstígs: Frá Kapteins-Gunnu til Thorsbræðra  frá 1990 stendur eftirfarandi lýsing á húsinu nr. 15:

Á Grundarstíg 15 eru tvö samhliða hús, tvílyft steinhús norðar og einlyft múrhúðað timburhús sunnar. Stór gluggi er á efri hæð steinhússins og þar blasa við höggmyndir inn um gluggann og utan á húsinu er fagurt skilti. Á því stendur að hér sé vinnustofa Ríkharðs Jónssonar myndhöggvara og hér bjó hann lungann úr ævi sinni, skar þar út á vinnustofu sinni og hjó í stein sínar fögru myndir. Múrhúðaða timburhúsið reisti annar mikill listamaður og dó þar í spönsku veikinni 1918. Það var Guðmundur Magnússon, öðru nafni Jón Trausti rithöfundur“.

Og nokkru síðar segir í sömu grein:

„Í þessu húsi bjuggu líka um nokkurra ára skeið systkinin Ásta málari Árnadóttir, Ársæll bókbindari og Magnús myndlistarmaður.“

Ekki má heldur undanskilja Helga Valtýsson rithöfund, forstjóra Líftryggingafélagsins Andvöku og einn aðalstofnenda Ungmennafélags Reykjavíkur, en hjá honum leigðu systkinin sem nefnd voru hér að ofan. Á vefnum timarit.is er hægt að fletta upp miklum fróðleik úr dagblöðum liðinna tíma um þetta merka fólk.

Í grein Mbl. frá 1991 um Ríkarð Jónsson og Grundarstíg 15 kemur fram að Ríkarður keypti húsið árið 1927 og flutti í það tveimur árum seinna (grein). Og í ævisögu sinni, Með oddi og egg sem Eiríkur Sigurðsson skráði, segir Ríkarður:  „Hér á Grundarstíg 15 höfðu búið tveir rithöfundar áður en ég kom hingað. Það er eins og húsinu fylgi eitthvert listrænt andrúmsloft.“

Dætur Ríkarðs áttu sér þann draum að borgin keypti húsið og gerði að safni með verkum Ríkharðs en af því varð því miður ekki.


Starfsemi og viðburðir í húsinu í gegnum tíðina

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

 • 1911: Guðrún Sigurðardóttir, kona Jóns Trausta, Grundarstíg 15, skrifar undir áskorun sem varðar Hannes Hafstein og stuðning hans við kvenréttindamál (áskorun). Þessi áskorun birtist raunar í mörgum blöðum.
 • 1911: Ásta Árnadóttir málarameistari tekur að sér alt, sem að málaraiðn lýtur, alls konar skrautmálun á herbergjum og húsgögnum eftir nýjustu tízku, skilti o. fl. o. fl. Vinnustofa Miðstræti 10. Heimili Grundarstíg 15 (augl.)
 • 1913: Þýsku kennir Ársæll Árnason Grundarstíg 15. Hefir dvalið í Þýzkalandi (augl.). Hann auglýsir einnig 1914.
 • 1915: Stúlka óskast. Holger Wiehe háskólakennari, sem flytur hingað í sumar, óskar eftir þjónustustúlku til inniverka. Hátt kaup í boði. Talið við Guðmund Magnússon rithöfund, Grundarstíg 15 (augl.)
 • 1915: Stúlka, dugleg og þrifin, sem skilur dönsku, óskast í vist frá júlibyrjun í sumar. Uppl. á Grundarstíg 15, niðri (augl.)
 • 1918: Jarðarför mannsins míns, Guðmundar Magnússonar rithöfundar, fer fram frá Dómkirkjunni, laugardaginn 14. þ. m. og hefst með húskveðju kl. 12 á hádegi á heimili okkar, Grundarstíg 15. Guðrún Sigurðardóttir (tilkynning)
 • 1919: Uppboð á húsmunum úr dánarbúi Jóns Trausta þ.e. Guðmundar Magnússonar (augl.)
 • 1920:  Prjónaskapur, ódýr og fljótt afgreiddur í Grundarstíg 15 (uppi). Anna Björnsdóttir (augl.)
 • 1921: Stúlka tekur að sér að lesa með börnum í húsum (augl.)
 • 1922: JOLHÖGTID norska jólabókin.með fjölda mynda af listaverkum Einars Jónssonar, fæst enn hjá mjer, nokkur eintök, sem jeg hefi einkum ætlað kennurum. Helgi Valtýsson, Grundarstíg 15  (augl.)
 • 1922: Helgi Valtýsson er forstjóri Íslandsdeildar tryggingafélagsins Andvöku og auglýsir tryggingar af ýmsu tagi (augl.) – Sjá má slíkar auglýsingar allt fram til ársins 1927.
 • 1923: Bandalag tóbaksbindindisfélags Íslands heldur aðalfund á sunnudaginn 17. þ. m. kl. 10 árd. á Grundarstíg 15 (augl.)
 • 1928: VINNA Stúlka, sem hefir góð meðmæli, getur fengið atvinnu við heimilisstörf. Uppl. hjá frá Lövland, Grundarstíg 15, kl. 12—2 (augl.)
 • 1928: Í kviknaði í gær kl. 3 1/2 út frá strokjárni í húsinu við Grundarstíg 15. Slökkviliðið var þegar kvatt, en eldur var lítill og var slöktur þegar í stað. Engar skemdir urðu (frétt).
 • 1930: Karl Jónsson læknir var meðal farþega hingað til lands frá Danmörkumeð Íslandi síðast. Hann býr nú á Grundarstíg 15 (frétt).
 • 1930: Sunnudagslæknir verður á morgun Karl Jónsson, Grundarstíg 15, sími 2020 (augl.)
 • 1930: Myndir, listaverkamyndabók Ríkarðs Jónssonar, hefir selst talsvert á Norðurlöndum og í Ameríku. Hér fæst hún bæði hjá Ríkharði sjálfum á Grundarstíg 15 og hjá bóksölum. Hún er tilvalin jólagjöf (augl.)
 • 1930: Nýr heimilisiðnaður í vetur. Ríkarður Jónsson listamaður og  þýzkur læknastúdent, Emst Pruller að nafni, ætla að halda skóla saman í vetur (tilkynning) – Auglýsa einnig 1932.
 • 1930: Vestur-Íslendingar. Kaupið bók Ríkarðs Jónssonar, áður en þjer farið vestur. Verð rúmlega 2 1/2 dollar. Bókin fæst hjá öllum bóksölum og hjá Ríkarði Jónssyni, Grundarstíg 15 (augl.)
 • 1930: Vinnustofa Ríkarðs Jónssonar er flutt á Grundarstíg 15. Sími 2020 (augl.)
 • 1931: Get tekið nokkra kjóla til að sauma. Sigurlaug Kristjánsdóttir, Grundarstíg 15, uppi (augl.) – Auglýsir einnig 1932.
 • 1934: Grænn selskaps-páfagaukur hefir tapast frá Grundarstíg 15. Fundarlaun. Gróa Helgadóttir (augl.).
 • 1935: Veggskildir frá Rikarði Jónssyni eru mjög hentugir til jólagjafa, fást í Jólabazarnum, Laugaveg 10, Nýju leikfangabúðinni móti Edinborg og á Grundarstíg 15. Sími 2020 (augl.)
 • 1935: Grímubúningar á börn og fullorðna, frumlegir, smekklegir, saumaðir ódýrt.— Uppl. á Grundarstíg 15, uppi. — Sími 2674 (augl.)
 • 1940: Kenni áteikningu. Tek smábörn til kenslu. Jónína kr. Jónsdóttir, Grundarstíg 15, uppi (augl.)
 • 1940:  EG er flutt með baldýringuna á Grundarstíg 15, uppi. — Jónína Kr. Jónsdóttir (augl.)
 • 1945: Píanókennsla. Ásdís Ríkharðsdóttir Grundarstíg 15. Sími 2020 (augl.) – Auglýsir allt til 1978 a.m.k.
 • 1946: Tilkynning frá Austfirðingafélaginu. Fjelagsskýrteini verða afgreidd á Grundarstíg 15, miðvikudag, fimtudag og föstudag kl. 5—7 e. h. (tilkynning).
 • 1954: Mynd af heggnum fyrir utan hús Ríkharðs í blaðagrein (grein)
 • 1958: Ríkarður Jónsson, myndhöggvari, sjötugur í dag (grein)
 • 1968: Viðtal við Ríkharð (viðtal).
 • 1974: „BORGARRAÐ samþykkir að fela borgarstjóra að leita eftir kaupum á húsi Ríkharðs Jónssonar myndhöggvara, að Grundarstíg 15# í þeim tilgangi, að það verði í framtíðinni varðveitt sem safnhús (frétt)  – Þetta gekk ekki eftir.
 • 1986: Áprentaður eldspýtnastokkur gefur arð. Teron sf., Grundarstíg 15 (augl.)


Til fróðleiks

1939: Grein um Jón Trausta úr Morgunblaðinu: Skáldsagnahöfundurinn sem setti bækur sínar sjálfur (grein).

1964: Skemmtilegt jólabréf – Þorsteinn Kjarval/Ríkharður Jónsson (bréf)

Þjóðviljinn 1988: Ríkharður Jónsson, aldarminning (grein)