Húsin við Grundarstíg – Sjá einnig fróðleik um Þingholtin o.fl. eftir Guðjón Friðriksson


Bygging núverandi húss – eldri hús

Samkvæmt grein Guðjóns Friðrikssonar, Úr sögu Grundarstígs: Frá Kapteins-Gunnu til Thorsbræðra  frá 1990, stóð upphaflega gamall torfbær, þar sem Grundarstígur 17 er nú. Bær, sem ýmist var kallaður Suðurkot eða Valgarðsbær. Þar fæddist m.a. Hannes Friðsteinsson, síðar skipherra og þingvörður Alþingis.

Næst var reist timburhús á lóðinni, árið 1902 (skv. grein í sjómannablaðinu Víkingi frá 1974) sem hét Skálholt en var síðan flutt í burtu.

Skv. fasteignaskrá var núverandi hús reist árið 1935 en ekki er víst að það sé alls kostar rétt, sbr. auglýsingu frá 1937 sem sjá má hér fyrir neðan. Þar er lítið hús auglýst til sölu sem flytja þarf af grunni vegna nýbyggingar…


Fróðleiksmolar

Hallgrímur Jónsson keypti húsið árið 1917 og bjó þar þar til hann lést árið 1961. Hann var kennari og síðar skólastjóri og stofnaði Kennarafélag Barnaskóla Reykjavíkur og var formaður þess lengi (sjá viðtal við Hallgrím Jónsson áttræðan úr Alþýðublaðinu frá 1955).


Starfsemi og viðburðir í húsinu

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

  • 1917: Þú, sem tókst skóhlifarnar á grjótgarðinum við húsið Grundarstíg 17 verður að skila þeim strax ella skal þig kosta það verra, því það sást til þin (tilkynning)
  • 1917: Heimakensla. Undirritaður kennir íslenzku. Er til viðtals 5—6. Hallgr. Jónsson, Grundarstíg 17 (augl.)
  • 1924: Sagnaþættir heitir kver, sem Hallgrímur Jónsson hefir ritað á íslenzku eftir frásögnum erlendra sagnfræðlnga um merkismenn og atburði veraldarsögunnar. Fæst kverið við Grundarstíg 17, og geta þeir, sem fengið hafa fyrri hluta þáttanna, nú fengið áframhald þeirra þar (augl.)
  • 1926: Eyjablaðið málgagn alþýðu í Vestmanneyjum, fæst við Grundarstíg 17.  Útsölumaður Meyvant Hallgrímsson. Sími 1384 (augl.)
  • 1927: Heilræði eftir Henrik Lund fást við Grundarstíg 17 og i bókabúðum; góð tækifærisgjöf og ódýr (augl.)
  • 1932: Kenni smábörnum heima og les með unglingum dönsku, ensku og reikning. Anna Hallgrimsdóttir, kennari. Grundarstíg 17. Sími 1384 (augl.)
  • 1937: Lítið hús sem flytja þarf af grunni vegna nýbyggingar, er til sölu nú þegar. Talið við Hallgrím Jónsson, Grundarstíg 17 (augl.)
  • 1942: Mánudagur: Næturlæknir er María Hallgrímsdóttir, Grundarstíg 17, sími 4384 (augl.)  – María var dóttir Hallgríms Jónsonar og auglýsingu eins og þessa mátti sjá í mörg ár frá árinu 1941.
  • 1948: Í fjarveru minni í 10—14 daga . gegnir María Hallgrímsdóttir læknir, læknisstörfum fyrir mig. — Viðtalstími hennar er frá kl. 5—6 á Grundarstíg 17, sími 7025. Kristján Þorvarðsson, læknir (augl.)