Bygging núverandi húss

Húsið við Grundarstíg 4 er byggt árið 1925 skv. fasteignaskrá en þegar litið er á dagblöð frá fyrstu áratugum 20. aldar kemur allt annað í ljós. Auglýsingar um herbergi/íbúð til leigu í nýju steinhúsi á Grundarstíg 4 má t.d. finna í dagblöðum frá 1910 og 1911.

Ýmis starfsemi í húsinu í gegnum tíðina

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

  • 1912: Þuríður Árnadóttir Jónsson veitir tilsögn í ensku, dönsku og þýsku (augl.). Til er einnig skemmtileg fréttatilkynning um Þuríði þar sem segir m.a. “… dóttir síra Árna á Skútustöðum, auglýsti í síðasta tbl. Lögr. kenslu í ensku, dönsku og þýsku. Hún hefur dvalið erlendis og numið þar málin, verið bæði í Englandi, Danmörku og Þýskalandi, síðastl. 2 ár á skrifstofu þeirra stórkaupm. Garðars Gíslasonar & Hay í Leith, og er sögð af kunnugum mjög vel að sjer…”
  • 1915: Pétur Magnússon yfirdómslögmaður á Grundarstíg 4 auglýsir mikið af jörðum til sölu bæði 1915 og 1916 (augl.)
  • 1916: Fæði fæst á Grundarstíg 4 hjá Hendrikku Waage (augl.)
  • 1920: Vanir fiskimenn óskast – upplýsingar á Grundarstíg 4 (augl.)

 

  • 1923: Magnús Stefánsson er umboðsmaður fyrir miðum í happdrætti sænska ríkisins og sænskum ríkisskuldabréfum sem einnig eru happdrætti (augl.)
  • 1923: Kjólar og kápur saumaðar á Grundarstíg 4 (augl.)
  • 1927: Rafn Sigurðsson skipstjóri á Grundarstíg 4 auglýsir beinar ferðir frá Íslandi til N-Spánar (augl.)
  • 1926: St. Gunnlaugsson lögfræðingur býr í húsinu og auglýsir (augl.)
  • 1926: Hægt að kaupa ódýrt epli, appelsínur og vínber á þriðju hæð (augl.)
  • 1930: Vélritun og fjölritun annast Martha Kalman, Grundarstíg 4 (augl.)
  • 1940: Húsnæðismiðlari á Grundarstíg 4 auglýsir mikið þetta ár (augl.)
  • 1940: Charlotte Jónsson annast áritanir á tækifærisgjafir (augl.)
  • 1940: Arnfinnur Jónsson kennir ensku og þýsku (augl.)
  • 1942: Kristín Sigurðardóttir sníðir og mátar kjóla (augl.)
  • 1951: Húllsaumastofa Ingibjargar Guðjónsdóttur flyst úr Bankastræti 12 á Grundarstíg 4 (augl.). Helga Finnsdóttir kaupir stofuna 1955 en 1961 flytur hún saumastofuna í Hafnarfjörð (minningargr.)


Þessa mynd af Grundarstíg 4 er að finna í umfjöllun um Sósíalistaflokkinn í Þjóðviljanum árið 1954 en ekki er ljóst hvort myndin sjálf er frá því ári eða frá því um 1940.