Oft er í holti heyrandi nær, það má allavega með sanni segja í dag, hér eru í holtinu fjölmargir heyrendur og skemmtileg tímamót í sögu þessa gamla og nýja húss. Mig langar í örfáum orðum að fjalla um tímann og steininn og hljóðið eða hljóminn í holtinu. Á sumardaginn fyrsta 1915 brunnu tíu stór timburhús í miðbæ Reykjavíkur. Hannes Hafstein sem þá var á sextugsaldri varð einna fyrstur var við eldinn og gerði viðvart. Tveir menn létust í þessum eldsvoða og hann hafði geysileg áhrif á þetta litla samfélag, um 15 þúsund manns bjuggu þá í Reykjavík. Í kjölfar brunans var byggingarreglugerð Reykjavíkur breytt, ekki mátti byggja íbúðarhús úr  timbri  nema undir sérstökum kringumstæðum, steinsteypuöldin í Reykjavík gekk í garð og reist voru mörg fínustu steinhús bæjarins á þessum og næstu árum, þau sem Hörður Ágústsson kallar steinsteypuklassík.

Mánuði eftir brunann mikla í Reykjavík lagði Hannes Hafstein inn umsókn til bæjaryfirvalda um að mega reisa hús á lóð sinni á Grundarstíg og Skálholtsstíg og ekki nóg með það heldur fylgdi uppdráttur af  húsinu með umsókninni og “eins og hann ber með sér verður gólfið yfir kjallaranum og stigar gerðir úr járnbentri steinsteypu og öðru leiti verður húsið gert svo eldtryggt sem tök eru á bæði að utan og innan.” Bréf þetta er dagsett  28. maí 1915, teikningar Benedikts Jónassonar verkfræðings eru dagsettar daginn áður. Bréfinu er svarað reyndar ekki fyrr en 5 vikum seinna og honum þá heimilað að reisa umrætt hús “með Manzard-þaki “ eins og stendur í bréfinu. Hálfu ári síðar er húsið svo tekið út, þ.e. virt til brunabóta og er þá fullfrágengið, gólfdúkar, vatns-, gas- og skolpleiðslur og væntanlega tilbúið til íbúðar ef ekki þegar tekið í notkun. Hannes flutti hingað frá Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu án konu sinnar Ragnheiðar sem hafði látist tveimur árum áður, en með barnaskarann sinn og ömmurnar tvær, hann  veiktist sjálfur og gekk ekki heill til skógar hér, en hér varð eiginlega hans helgi steinn.

Það tók Hannes Hafstein sem sé hálft ár að reisa húsið sitt og flytja hér inn með fjölskyldu sína. Tímarnir breytast og kannski er tíminn afstæður og sennilega er ekki allt satt sem um hann er sagt en um þessar mundir eru sem sé fimm ár liðin frá því að  og Grétar Markússon félagi minn hittum þau Ragnheiði og Arnór í fyrsta sinn  til að ræða um þetta hús og þær hugmyndir sem þau höfðu um það og notkun þess. Í fyrstu fundargerð sem varðveist hefur af mörgum fundum er farið yfir alls konar mál er varða húsið og kjallarann og undirbúning ýmiss konar, en fundargerðinni lýkur þannig: “Rætt var um notkun hússins og framtíðardrauma og hvar mætti leita fyrirmynda sem kannski eru fáar til og finna verður eigin leiðir.”

Og það hafa þau svo sannarlega gert, fundið eigin leiðir til að gera þetta hús að ramma utan um þær hugsjónir og þann anda hússins og mannsins sem það byggði og sem þau fundu fyrir þegar þau komu hér fyrst inn. Hljómurinn í húsinu hafði verið hljóður í hartnær heila öld þegar þau komu hér inn. Við arkitektarnir höfum fengið að taka þátt í því með þeim og samstarfsmönnum okkar, Árna Þórólfssyni arkitekt, Gunnari H. Pálssyni akústískum ráðgjafa og síðast en ekki síst Gunnari Ólafssyni sem og öðrum tæknimönnum og landsliði iðnaðarmanna að skapa umgjörðina um þessa starfsemi í gamla húsinu og þessum nýja sal og erum þakklátir fyrir þá vegferð og fullir væntinga til þess að hinn helgi steinn Hannesar megi lifna á ný og hér megi hljóma bæði  þíðir og stríðir tónar og sem flestir fái notið hússins og húsið að njóta sem flestra.

Og til að koma þessu öllu beint til skila með orðum Tótu Sveins, þegar hún var að hengja upp myndir í gær:  Það rokkar feitt í Hannesarholti!