Sunnudaginn 28. apríl sl. kl. lék Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari á vígslutónleikum nýs flygils í Hljóðbergi, tónleikasal Hannesarholts menningarhúss. Tónleikarnir voru endurteknir tvisvar sinnum og var húsfyllir á öllum þremur tónleikunum.
Flygillinn er af gerðinni Steinway and Sons og Víkingur Heiðar valdi hann í Þýskalandi. Á tónleikunum lék hann leika verk frá ólíkum tímabilum tónlistarsögunnar til að sýna eiginleika hljóðfærisins í sem litríkustu ljósi, spjalla um flygilinn og um tónlistina. Óhætt er að segja að tónleikagestir hafi notið stundarinnar og nýi flygillinn hljómaði sérdeilis vel. Hér fyrir neðan má sjá brot af tónleikunum.
Víkingur Heiðar lauk námi til meistaragráðu frá Juilliard Listaháskólanum vorið 2008. Hann hefur komið fram á fjölda tónleika frá unglingsaldri, m.a. í Bandaríkjunum, Kína, Kanada, Lettlandi, Rúmeníu, Ítalíu, Belgíu, Spáni og Frakklandi auk þess að leika einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Juilliard Orchestra, New Juilliard Ensemble, Caput og Kammersveit Reykjavíkur svo fátt eitt sé nefnt. Víkingur hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir leik sinn. Hann hefur unnið Íslensku Tónlistarverðlaunin sem besti flytjandi og bjartasta vonin, sigrað í konsertkeppni Juilliard skólans og hlotið Menningarverðlaun Ameríska-Skandinavíska félagsins. Víkingur var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2009.
Við sama tækifæri var greint frá nafni tónleikasalar Hannesarholts en á útmánuðum var efnt til samkeppni um nafnið. Yfir eitt hundrað tillögur bárust og því úr vöndu að ráða fyrir valnefndina sem skipuð var fulltrúum úr stjórn og menningarráði auk forstöðumanns. Að endingu varð niðurstaðan sú að nefna salinn Hljóðberg en höfundur þeirrar tillögu er Haukur Ingvarsson, útvarpsmaður og rithöfundur. Nafnið var opinberað við vígslu nýs flygils í gær og Hauki færð gjöf að launum.