Húsið að Grundarstíg 10, sem hýsir starfsemi Hannesarholts, hefur margvíslegt menningarsögulegt gildi.

  • Byggt árið 1915 fyrir Hannes Hafstein fyrsta ráðherra Íslands
  • Meðal 15 elstu steinhúsa í Reykjavík og var byggt í kjölfarið á Reykjavíkurbrunanum árið 1915
  • Skriflegar heimildir benda til þess að bruninn hafi haft áhrif á gerð hússins
  • Benedikt Jónasson verkfræðingur teiknaði húsið sem þykir ólíkt öðrum húsum í Reykjavík

Húsið er voldugt tvílyft steinhús með mansardþaki, hátt til lofts og fallega skreyttir gifslistar í kverkum og í kringum ljósakrónur. Benedikt var bæjarverkfræðingur í Reykjavík á árunum 1911-1916 og eru örfá hús þekkt eftir hann en húsið að Grundarstíg þykir bera þess vott að hann hafði næma tilfinningu fyrir byggingalist (sbr. Guðjón Friðriksson, “Ég elska þig stormur”, 2005, bls. 635 og Hörð Ágústsson, Íslensk byggingararfleifð I, 2000, bls. 330).

Viðgerðir

Arkitektastofan Argos (Stefán Örn Stefánsson og Grétar Markússon arkitektar) og Gunnar St. Ólafsson verkfræðingur höfðu umsjón með viðgerðum á húsinu að Grundarstíg 10.