AUÐUR ÍSLANDS – ,,TÍMINN OG JÖKLARNIR“
02/10/2018 @ 20:00 - 22:00
Auður Íslands er nýr dagskrárliður í Hannesarholti sem lítur til lands, þjóðar og tungu útfrá sjónarhornum náttúruvísinda, félagsvísinda og lista. Andri Snær Magnason ríður á vaðið með þremur kvöldum á haustönninni undir þessum hatti. Kvöld Andra Snæs eru nokkurs konar þríleikur sem gengur undir heildarheitinu „Tíminn og vatnið“. Fyrsta kvöld þríleiksins er á dagskrá þriðjudaginn 2.október kl.20 og nefnist „Tíminn og jöklarnir“. Með Andra Snæ þetta kvöld verða Helgi Björnsson jöklafræðingur og Snorri Helgason tónlistarmaður. Pálmasjóður styrkir þessa viðburðadagskrá og eru færðar þakkir fyrir.
Andri Snær Magnason hefur síðustu ár unnið að verkefni sem fjallar um ,,tímann og vatnið“. Á þessari öld spá vísindamenn grundvallarbreytingum á eðli vatnisins á jörðinni. Jöklar bráðna hraðar en áður hefur sést og yfirborð sjávar mun rísa hraðar en dæmi eru um. Sýrustig sjávar mun taka grundvallarbreytingum og loftslag mun hlýna með tilheyrandi breytingum á veðri, vindum og lífskilyrðum milljóna jarðarbúa. Andri Snær efnir í þrjú kvöld í Hannesarholti í haust og gefur okkur innsýn í verk í vinnslu þar sem þessi mál verða krufin til mergjar. Hann fær til liðs við síg þrjá vísindamenn og þrjá tónlistarmenn. Í verki sínu blandar Andri Snær saman vísindum, minningum, goðafræði og viðtölum til að reyna að skilja þessi mikilvægustu mál samtímans. Segja má að bókin sé einskonar framhald af Draumalandi en samhengið er víðara, stærra en líklega alvarlegra og flóknara.
2.október: Tíminn og ísinn – ásamt Helga Björnssyni jöklafræðingi og Árna Heiðari Karlssyni. Helgi Björnsson hefur verið prófessor í jarðvísindum við Háskóla Íslands og höfundur bókarinnar um Jökla á Íslandi. Snorri Helgason tekur með sér gítarinn og leysir Árna Heiðar Karlsson af sem liggur í veikindum.
Pálmasjóður styrkir þessa viðburðadagskrá og eru færðar þakkir fyrir.