Hleð Viðburðir

Guðrún Benedikta Elíasdóttir útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1987 og hefur búið og starfað við myndlist og myndlistarkennslu á Íslandi, í Frakklandi og Lúxemborg. Í dag vinnur hún vinnur að list sinni auk þess að kenna myndlist og leirmótun í Menntaskólanum við Sund.

Guðrún hefur tekið þátt í fjölmörgum einka-og samsýningum í sýningarsölum bæði hérlendis og víðs vegar um Evrópu og í Bandaríkjunum. Má þar helst nefna CAL, Cercle Artistique de Luxembourg, artmetz í Metz í Frakklandi, EVBK í Prüm í Þýskalandi og einkasýningar í Konchthaus Beim Engel í Lúxemborg, Svavarssafni, Slunkaríki, Populus Tremula og Menningarmiðstöð í Spönginni (Artótek). Hún hefur dvalið á gestavinnustofum í Frakklandi og á Akureyri. Guðrún var ein af stofnendum Gallerí Skruggusteins og rak það þar til hún flutti til Suður-Frakklands og var í tengslum við það kjörin bæjarlistamaður Kópavogs 1996.

“Ég vinn með náttúruna í víðri merkingu. Ég bý til mína eigin liti eða temperu sem kallast „patine au vin“. Innihaldið er í m.a. hvítvín, egg og sitthvað fleira. Uppskriftin er ævagömul og ég fann hana í litaduftsverksmiðju í Roussillon í Frakklandi þar sem unninn er litur úr fjöllunum. Hef verið að þróa hana áfram síðan árið 2006 þegar ég var á gestavinnustofu í suður Frakklandi.

En til að auka sjálfbærni og virðingu við náttúruna þá hef ég minnkað notkun á innfluttu litadufti og sæki mína liti sjálf í Íslenska náttúru. Myl grjót sem ég finn víðs vegar um landið á ferðum mínum og nota í málverkið. Auk þess að nýta eldfjallaösku þar sem það á við. Ég er mest að vinna með jöklana núna m.a. áhrif hlýnunnar á þá, en jöklar eru einlægt áhugamál þar sem ég ólst upp á Hornafirði í nálægð við Vatnajökul og tókst meira að segja að detta í jökulsprungu á unglings aldri, svo að ég hef skoðað þá í meira návígi en margur.

Þar sem bráðnun jöklanna eykst hraðar en nokkru sinni finnst mér ástæða til að halda áfram að minna á þessa stórfenglegu risa sem hafa svo mikil áhrif á umhverfi sitt og ekki síður áhrifin sem umhverfið hefur á þá. Mér finnst líka mjög viðeigandi að koma þessu til skila á strigann með efnum úr íslenskri náttúru. Einnig átökum elds og íss, öskufallið sem myndar fíngerðar línuteikningar á fannhvítar breiðurnar.”

Frekari upplýsingar um nám og sýningarferil má finna á heimasíðunni www.rbenedikta.com

Upplýsingar

Byrja:
08/09/2018
Enda:
03/10/2018
Viðburður Category:

Staðsetning

Veitingastofur 1.hæð