Hleð Viðburðir

Þóra Kristín Gunnarsdóttir, píanó, Stephanie Sutterlüty, óbó, og Barbara Hess, víóla, flytja verk eftir Claude Debussy, Francis Poulenc, Rebecca Clarke og August Klughardt. Yfirskrift tónleikanna vísar m.a. í hina fjölbreyttu efnisskrá þeirra, þar sem verk frá ólíkum stefnum, straumum og löndum er að finna. Hér mætast ástríður og dramatík rómantíkurinnar, dularfullur og seiðandi impressionismi og hinn tæri og heillandi stíll óbósónötu Poulenc, sem er tileinkuð minningu rússneska tónskáldsins Sergei Prokofiev.

Árið 1872 skrifaði August Klughard tríó við ljóð Nikolaus von Lenau, Schilflieder. Þessi ljóð fjalla um þá örvæntingu og þær ljúfsáru tilfinningar sem fylgja óendurgoldinni ást. Klughardt skrifaði einn kafla fyrir hvert ljóð og skrifaði textann inn í nóturnar, svo að verkið er eins konar ljóðasöngur fyrir óbó, víólu og píanó í stað söngvara og píanós.
Á titilsíðu víólusónötu hinnar bresku Rebeccu Clarke frá árinu 1919 er að finna tilvitnun í ljóðið La Nuit de Mai (Maínótt) eftir Alfred de Musset. Rebecca Clarke er lítt þekkt í heimi klassískrar tónlistar þrátt fyrir einstakan persónulegan stíl sem sameinar þýsk, frönsk og bresk áhrif – síðrómantík, impressionisma og þjóðlagastemmningu.
Claude Debussy er talinn hafa verið meðal fyrirmynda Rebeccu Clarke – m.a. notar hún hina ýmsu skala, svosem pentatóník og heiltónaskala, sem einnig má heyra í verkum Debussy sem verða leikin á þessum tónleikum. Hún leikur sér einnig á svipaðan hátt og Debussy með fínleg blæbrigði og „liti“ í tónlistinni.
Francis Poulenc markaði sig aftur á móti skýrt af frá þessum fyrirrennurum sínum sem einn hinna frönsku „Les Six“, sem boðuðu breytta tíma í frönskum tónsmíðum. Hann er einna þekktastur fyrir heillandi laglínur og húmor í tónlist sinni. Óbósónatan hans er þó á alvarlegri nótunum, þar sem hún er tileinkuð minningu rússneska tónskáldsins Sergei Prokofiev og skrifuð í kjölfar andláts hans.

Fyrsta stefnumót þeirra Þóru, Barböru og Stephanie var í Tónlistarháskólanum í Luzern þar sem þær stunda allar nám. Þóra og Barbara stefna á að ljúka BA-námi í vor, en Stephanie stundar MA-nám í óbóleik. Þær hafa spilað saman öll námsárin en þó aldrei áður sem tríó. Þessir tónleikar eru liður í námi Þóru, en í stað þess að skrifa BA-verkefni geta nemendur skipulagt og haldið tónleika, eins og Þóra kaus að gera.

Þóra hóf tónlistarnám sitt við Tónlistarskólann á Akureyri undir leiðsögn Dýrleifar Bjarnadóttur. Síðar nam hún við Tónlistarskóla Reykjavíkur hjá Peter Máté og árið 2011 lá leiðin til Luzern í háskólanám í píanóleik hjá hinni svissnesku Yvonne Lang. Auk námsins í Luzern sækir Þóra reglubundið námskeið, t.d. hjá Katia Veekmans og dr. Maria Asteriadou og einnig námskeið í samleik og kammertónlist bæði í Sviss og á Grikklandi.

Hin svissneska Barbara Hess lék lengi á fiðlu áður en áhugi hennar tók að beinast að víólunni. Barbara er nemandi Isabel Charisius, sem var meðlimur í hinum virta Alban Berg kvartett. Hún hefur sótt námskeið hjá m.a. Thomas Riebl, Sebastian Hamann, Danusha Waskiewicz og Veronika Hagen. Hún spilar með 21st Century Orchestra og leiddi lengi víóludeild svissnesku ungmennahljómsveitarinnar, Schweizerische Jugendsinfonieorchester. Barbara starfar einnig sem leiðbeinandi við sumarnámskeið í tónlist fyrir börn og unglinga í Luzern.

Stephanie Sutterlüty er austurrísk að uppruna og hlaut tólf ára gömul sína fyrstu kennslustund í óbóleik. Tveimur árum síðar hóf hún nám við Vorarlberger Landeskonservatorium hjá Manouchehr Sahba. Síðan þá hefur hún spilað með hinum ýmsu hljómsveitum m.a. í Sviss, Austurríki, Frakklandi og á Spáni, með stjórnendum á borð við Heinz Holliger, Israel Yinon og Dimitry Sitkovetsky. Kennarar hennar við Tónlistarháskólann í Luzern eru Kurt Meier og Christian Hommel og hún hefur m.a. spilað á masterclass-námskeiði hjá hinum þekkta óbóleikara Maurice Bourgue.

Upplýsingar

Dagsetn:
01/03/2014
Tími:
15:00 - 17:00
Verð:
ISK1.000
Vefsíða:
http://midi.is/tonleikar/1/8124/

Staðsetning

Hljóðberg